Róttæk ást

Fyrir um það bil ári síðan kom út bók eftir bandaríska guðfræðinginn Jacqueline Bussie rithöfund og guðfræðiprófessor. Bókin heitir „Love without limits“ eða ást án takmarkana og fjallar um róttæka sýn Jesús Krists á ástina. Markmið bókarinnar er að hvetja lesendur til að útvíkka kærleika sinn og reyna að elska eins og Guð, án takmarkana og án undantekninga. Bókin er byggð á sögum úr lífi höfundarins og fleira fólks sem varpa ljósi á það hvernig við getum elskað fólk sem er ólíkt okkur. Þessi bók er skrifuð í bandarísku samhengi og þarna eru m.a. sögur fólks sem er múslimar, hinsegin fólk, innflytjendur og  aðra hópa sem gjarnan eru á jaðrinum í því samfélagi.

Bussie var með samning við stórt kristið útgáfufyrirtæki sem hún skrifaði bókina fyrir og hún tók sér árs leyfi frá vinnu til að skrifa hana. Þegar handritið var tilbúið tilkynnti útgáfufyrirtækið henni að bókin væri of róttæk og að þau vildu ekki gefa út bókina nema að taka út ákveðna kafla. Þau vildu t.d. taka allt um múslima og hinsegin fólk úr bókinni og sögðu höfundinum að hún gæti bara birt þessa kafla á heimasíðunni sinni. Bussie kallaði þetta ritskoðun og neitaði að leyfa þeim að gefa út bókina með þessum hætti. Annaðhvort yrði bókin gefin út eins og hún væri skrifuð eða ekki. Til að gera langa sögu stutta fór þetta svo að eftir u.þ.b. mánaðar þunglyndi tók höfundurinn sjálfsmynd af sér með teip fyrir munninum sem á var ritað  orðið „RITSKOÐUN“. Myndina birti hún svo á facebooksíðunni sinni og varð hún til þess að stór útgáfufyrirtæki höfðu samband og bókin var gefin út eins og hún var skrifuð.

Bóikn varð metsölubók og hefur vakið mikla athygli.

Gæti þetta gerst í kristnu samhengi á Íslandi?

Nú búum við, við töluvert annan veruleika í okkar frjálslynda samfélagi á Íslandi. Þetta myndi ekki gerast hjá útgáfufélagi Þjóðkirkjunnar. Það er ég alveg viss um. Og þetta myndi ekki gerast hjá nokkru almennu útgáfufélagi hér á landi. En það hefur ekki alltaf verið þannig og það þýðir heldur ekki að allir Íslendingar séu á einu máli um þessi mál.

Ást og góðvild
Bókin hennar Bussie snýst um róttæka ást.

Er ekki róttækt af Jesú að segja að við eigum að elska Guð, elska náungann og elska okkar sjálf? Jesús segir ekki að við eigum bara að elska Guð þegar við erum búin að fá áþreifanlega sönnun um að Guð sé til. Hann segir ekki að við eigum bara að elska náungann þegar hann er eins og við viljum að hann sé. Og hann segir ekki að við eigum bara að elska okkur þegar okkur tekst að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.

Kannski er einmitt þetta tilgangurinn með lífinu, með öllu saman; Að reyna alltaf að elska Guð, annað fólk og okkur sjálf, líka þegar við eigum erfitt með að trúa, líka þegar náunginn er óþolandi og jafnvel vondur og líka þegar við sjálf erum misheppnuð.

En svona í alvöru talað, er þetta hægt?

Ég verð alveg að viðurkenna að mér finnst fullt af fólki óþolandi. T.d. fólk sem mér finnst hafa vondar skoðanir, fólk sem mér virðist hreinlega vera vont. Ég er svo sannarlega ekki alltaf sátt við sjálfa mig og er áreiðanlega mun harðari við mig sjálfa en við annað fólk. Já, og ég elska Guð ekki alltaf og stöðugt jafnheitt.

En hvað á Jesú við þegar hann segir að við eigum að elska? Þegar við tölum um að elska einhverja manneskju þá held ég að við leggjum flest afar djúpa merkingu í hugtakið. Ég er nokkuð viss um að við eigum þá flest við djúpa og skilyrðislausa ást, þá tegund ástar sem við finnum til maka eða kærustu eða kærasta. Eða þá tegund ástar sem við berum til barna okkar eða  þá ást sem við berum til systkina okkar, foreldra eða vina.

En ég held að Jesús sé ekki að gera þá kröfu að við finnum til þess konar ástar til alls fólks. Ég held að það sem Jesús sé að krefja okkur um (hann er ekki bara að biðja okkur hæversklega um þetta hann krefur okkur um þetta) er að við lítum mildum augum á allt fólk. Að við temjum okkur velvild, góðmennsku og virðingu í framkomu og reynum jafnvel að finna þessar tilfinningar í garð Guðs, náunganns og ekki síst til okkar sjálfra.

Sögurnar okkar
Heimspekingur nokkur sagði að óvinurinn væri aðeins manneskja með sögu sem við hefðum ekki heyrt enn. Bókin hennar Bussie er m.a. byggð á sögum. Hún fær okkur til þess að skilja þessa róttæku kröfu Jesú á því að við elskum hvert annað með því að segja sögur. Það er nefnilega auðveldara að láta sér mislíka við fólk sem við þekkjum ekki, fólk sem hefur ekki sagt okkur sögurnar sínar.

Hver kannast ekki við að hafa fyrirvara gagnvart einhverri manneskju þar til við fáum að heyra söguna hennar eða sögurnar? Þar til við fáum að kynnast henni sjálfri eins og hún er?

Við eigum öll sögur.

Við eigum ekki eina sögu. Við eigum margar sögur.

Við þurfum að gæta okkur á því að dæma fólk út frá einni sögu, að dæma heilu hópana út frá einni sögu eða einni manneskju sem tilheyrir þeim hópi. Þannig eru ekki allir múslimar hryðjuverkafólk og raun aðeins sárafáir. Þannig er ekki allt kristið fólk fordómafullt í garð hinsegin fólks og í raun aðeins lítill hluti. Þannig er ekki allt trúlaust fólk á móti trúuðu fólki.

Með róttækri ást er Jesús ekki biðja okkur að elska allt fólk heitt og innilega. Hann er ekki einu sinni að biðja okkur um að láta okkur líka vel við allt fólk. Það er ekki hægt. Hann er ekki að biðja okkur um að vera fullkomin. Það er heldur ekki hægt. Hann er bara að biðja okkur um að skilja að öll eigum við margar sögur. Að öll erum við alls konar. Hann er að biðja okkur um að sýna Guði, náunganum og okkur sjálfum velvild, góðmennsku og virðingu.

Það er mikilvægt að deila sögum því þær hjálpa okkur að ná yfir landamæri og þær hjálpa okkur að elska á þennan róttæka hátt sem Jesús vill að vill að við elskum. Og þá verður auðveldara að sýna Guði, náunganum og okkur sjálfum velvild, góðmennsku og virðingu.

Dýrð sé Guði sem elskar á róttækan hátt, án takmarkana og án undantekninga.

Nusrat, bruninn og upprisa jarðar

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á páskadagsmorgun 2019

Nusrat
Á þessum páskadagsmorgni langar mig að segja ykkur frá Nusrat Jahan Rafi, 19 ára stúlku frá Bangladesh. Nusrat varð fyrir kynferðislegri áreitni af hendi skólastjóra. Hún var múslimi, fjölskyldan hennar var íhaldssöm og hún var nemandi í ströngum og íhaldssömum skóla. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir stúlku í hennar stöðu í Bangladesh að segja frá kynferðislegri áreitni. En þolendur kynferðislegrar áreitni eru gjarnan dæmdir af samfélaginu og fjölskyldunni og verða fyrir árásum, bæði á samfélagsmiðlum en einnig verða þau fyrir líkamlegu ofbeldi. Nusrat sagði ekki aðeins frá áreitninni heldur fór hún, með stuðningi fjölskyldu sinnar, til lögreglunnar og kærði skólastjórann og hún varð fyrir öllu ofantöldu.

Þegar hún fór og kærði var þar viðstaddur lögreglumaður sem tók upp allt sem hún sagði og deildi því síðan á samfélagsmiðlum. 27. mars síðastliðinn, eftir að hún hafði lagt fram kæru og skólastjórinn var handtekinn. Eftir það versnaði staða Nusrat enn frekar. Fólk mótmælti og hún varð fyrir stöðugu áreiti. 6. apríl síðastliðinn fór hún í skólann til þess að taka lokaprófin. Bróðir hennar fylgdi henni en hann réð ekki við neitt. Henni var ekki hleypt inn í skólann til þess að taka prófin heldur var farið með hana upp á þak þar sem var kveikt í henni. Hún lést ekki samstundis en hún hlaut alvarleg brunasár á 80% líkamans. Hún var þó með meðvitund nógu lengi til þess að geta borið kennsl á nokkra af árásarmönnunum. Hún lést 10. spríl síðastliðinn af sárum sínum.

Mörg þúsund manns komu í jarðarförina hennar Nusrat og lögreglan hefur nú handtekið 15 manneskjur sem eru grunaðar um að hafa tekið þátt í að taka hana af lífi. Lögreglumaðurinn sem tók upp myndbandið af henni og dreifði á samfélagsmiðlum hefur verið færður til í starfi (hvað sem það þýðir) og forætisráðherra landsins hefur hitt fjölskylduna hennar og heitið þeim að hverjum þeim sem tóku þátt í þessu verði refsað.

Það sem þó skiptir mestu máli er að nú er fólk farið að mótmæla harðlega hvernig komið er fram við konur í landinu og réttindabarátta kvenna er komin á dagskrá.

En fyrst þurfti Nusrat að deyja!

Saga Nusrat er saga margra kvenna og hún er líka saga margs fólk sem hefur þurft að deyja fyrir málstað sinn.

Getur verið að til þess að upprisa geti orðið þurfi fyrst eitthvað eða einhver að deyja?

Það er oft eins og við getum ekki risið almennilega upp fyrr en eyðileggingin er orðin algjör og við höfum þegar reynt hversu langt við getum gengið í því að skemma og eyðileggja og drepa, oft með hirðuleysi og áhugaleysi.

Notre Dame
Dæmi um þetta sáum við þegar Notre Dame varð eldi að bráð í vikunni sem leið. Það gerðist eitthvað stórbrotið með þessum bruna. Frakkar, Evrópa og fjöldi landa heimsins vöknuðu upp og virtust átta sig á hvað þessi kirkja, sem byrjað var að reisa þegar á 12. öld, var mikilvæg. Henni hefur verið lýst sem hjarta Parísar, Frakklands og Evrópu allrar enda var ekki aðeins byggingin einstök heldur varðveitti hún ómetanlega listmuni og sögulega gripi og hún var hús tilbeiðslu og andlegrar næringar. Sem betur fer tókst að bjarga stærstum hluta verðmæta kirkjunnar og hún stendur enn, þrátt fyrir að stór hluti hennar sé horfinn.

Við atburði sem þessa er eðlilegt að við leitum að táknum. Þegar þessi merka dómkirkja Parísar brann var af nógu að taka. Helsta bænhús kristinnnar í Frakklandi brennur í upphafi kyrruviku, eyðileggingin er mikil en þó stendur byggingin enn uppi, krossinn og altarið standa óhreifð eftir hamfarirnar. Það er ekki óeðliegt að kristið fólk og þau sem eru trúuð eða hafa áhuga á andlegum málum yfirleitt velti þessum táknum fyrir sér.

Það leið ekki langur tími frá því alvarleiki brunans varð ljós þar til forseti Frakklands hafði heitið Frökkum, og heimsbyggðinni allri, að kirkjan yrði endurreist. Hann vildi hugga.

Það leið heldur ekki á löngu áður en ríkasta fólk Frakklands hafði heitið mörg hundruðum milljónun evra til uppbyggingar á kirkjunni. Og peningarnir héldu áfram að streyma inn. Nú hefur frakklandsforseti lofað því að þessi 850 ára gamla kirkja verði endurbyggð á fimm árum og að hún verði enn fegurri en áður.

Þurfti Notre Dame að brenna til þess að fólk uppgötvaði hversu miklu máli hún skipti? Þurfti kirkja að brenna til þess að fólk finndi að það þyrfti á þessu tilbeiðsluskjóli að halda?

Jörðin
Í vikunni mátti sjá fyrirsögn í fjölmiðlum um að Greta hafi barist við grátinn. Hér var að sjálfsögðu átt við Gretu Thunberg frá Svíþjóð en hún hefur að undanförnu farið fyrir baráttu ungs fólks fyrir umhverfismálum. Reyndar er það einfaldlega þannig að Greta, sem er aðeins sextán ára gömul, er nú fyrirmynd og leiðtogi bæði ungs fólks og okkar sem eldri erum í baráttunni fyrir jörðinni okkar. Þessi unga kona hefur fengið fólk um allan heim til þess að snúa við blaðinu og láta sig umhverfismálin varða enda kemur hún vel til skila þeim skilaboðum að hér er um að ræða baráttu upp á líf og dauða, að ef við gerum ekki eitthvað sem skiptir sköpum núna, þá munu afkomendur okkar ekki lifa af. Þessi fyrirsögn um að Gréta hafi barist við grátinn var hálf undarleg því það sem skipti máli í þessari frétt var það sem Gréta sagði en ekki það að hún hafi verið við það að beygja af.

Í fréttinni bar Gréta elds­voðann í Notre Dame-dóm­kirkj­unni sam­an við neyðarástandið í lofts­lags­mál­um. Hún sagði um­heim­inn hafa horft skelf­ingu lost­inn á það þegar kirkj­an brann og að það væri skilj­an­legt því sum­ar bygg­ing­ar væru meira en bara bygg­ing­ar. En Notre Dame verður end­ur­byggð og vonandi eru stoðir henn­ar sterk­ar. Og hún sagðist vona að stoðir jarðarinnar okk­ar væru jafn­vel enn sterk­ari, en að hún óttaðist að þær væru það ekki.

Greta er ekkert of bjartsýn á framtíð jarðarinnar enda hefur komið í ljós að samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna að teg­und­ir dýra séu að deyja út hraðar en áður var talið, að mik­il jarðvegs- og skógareyðing eigi sér stað auk loft­meng­unnar og súrn­un hafs­ins. Já, og það er nóg að horfa á þættina „Hvað gerum við“ sem hafa verið sýndir á RUV að undanförnu til þess að átta sig á að við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda sem okkur ber að taka alvarlega.

Getur verið að við þurfum að eyða jörðinni okkar nær algjörlega til þess að við áttum okkur og reisum hana við á ný?

Jesús
Þegar Jesús var ofsóttur og síðar krossfestur, var illskan, óttinn og reiðin við völd. En eitt af því sem er mikilvægt að við áttum okkur á þegar kemur að ofbeldinu og ofsóknunum gegn Jesú er að hann varð aldrei fórnarlamb því hann var ekki „passívur“. Hann sagði lítið og hann mótmælti aldrei með látum, en hann mótmælti.. Hann hnikaði aldrei frá því sem var satt og rétt, sama hvernig komið var fram við hann. Hann var hinn sanni friðsami mótmælandi.

En mótmæli hans fóru á þann veg að valdhafarnir þoldu þetta ekki og gengu alla leið. Hann var ógn við valdaöflin vegna þess að hann hlýddi þeim ekki.

Upprisa Jesú átti sér stað á tveimur sviðum. Annarsvegar hin jarðneska upprisa sem fólst í því að hann sigraði með því að gefa sig aldrei, með því að falla aldrei í þá freistni að þóknast valdhöfnum heldur halda sig við sannleikann. Og þannig má segja að valdaöflin hafi tapað því þau leystu ekkert með krossfestingunni annað en að þau urðu álitin níðingar sem réðust á, og tóku lífið af friðsamri og valdalausri manneskju. Hins vegar höfum við upprisuna sem við kristið fólk trúum að hafi breytt öllu. Upprisuna þar sem Guð sigraði dauðann.

Eyðilegging og upprisa
Hörmulegt morð á konu í Bangladesh þurti til þess að vekja fólk til meðvitundar um stöðu kenna og kynferðisofbeldi þar í landi og það á við um fjölda annarra landa og samfélaga.

Bruna Notre Dame þurfti til þess að fólk skildi hversu miklu máli þessi kirkja skipti fyrir trúarlíf, menningu og sögu Frakklands og jafnvel Evrópu allrar.

Þurfum við að eyða jörðinni okkar nær algjörlega til þess að skilja að hún er lífæðin okkar, til þess að skilja að ef við eyðum jörðinni alveg þá þurrkum við út lífsmöguleika okkar um leið?

Kannski þurfti að taka Jesú af lífi til þess að upprisan gæti orðið. Kannski var grimmdin og ömurleikinn forsenda upprisunnar.

Getur verið að við verðum að sjá algjöra eyðileggingu, kanna hversu langt við getum gengið til þess að sjá að okkur og rísa upp?  

Oft er það þannig að sumir hlutir þurfa að deyja til þess að eitthvað nýtt geti vaxið, til þess að breytingar geti átt sér stað. Kannski þarf gömul kirkja að brenna til þess að ný lifandi kirkja geti vaxið. En við eigum ekki að þurfa að eyða lífi til þess að hugarfarsbreyting geti orðið og við eigum ekki að þurfa að eyða jörðinni okkar til þess að við skiljum hversu mikilvæg hún er.

Á páskadegi fögnum við af öllu hjarta, því lífið sigraði dauðann. Kærleikurinn sigraði illskuna. Guð hefur gefið okkur von um að við getum risið upp á öllum sviðum. Þessi trú ætti að vera okkar mesti hvati til þess að taka höndum saman og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hlúa að jörðinni okkar, lífæðinni og öllu þvi sem á henni lifir.

Við megum ekki láta eyðileggingu og vanrækslu ganga það langt að upprisa jarðar og þar með alls lífs á jörðu komi oft seint.

Dýrð sé Guði sem sigraði dauðann og getur hjálpað okkur að rísa upp án þess að þurfa að eyðileggja allt fyrst.
Amen.

Tuðrararnir

Bechdel-prófið
Ég veit ekki hvort einhver ykkar hafa heyrt um Bechdel-prófið. Þetta próf birtist fyrst í 1985 í sögunni „The Rule“ í teiknimyndasögunni Dykes to Watch Out for eftir Alison Bechdel. En prófið er notað sem mælikvarði á sýnileika kvenna í kvikmyndum. Til þess að kvikmynd standist þetta próf þarf þrennt að vera til staðar:

  1. Það þurfa að vera tvær konur eða fleiri í myndinni og vera nafngreindar.
  2. Þær þurfa að tala við hvor aðra.
  3. Þær þurfa að tala um eitthvað annað en karlmenn.

Þetta próf fjallar ekki um það hvort myndin sé feminísk eða hvort hún sé góð heldur aðeins um sýnileika kvenna í henni. Ég hvet þig til að nota prófið á næstu bíómynd sem þú sérð  eins sjálfsögð og þessi atriði eru þá er er ótrúlegt hversu fáar kvikmyndir standast prófið.

Hvað ætli gerist ef við notum Bechdel-prófið á Biblíuna? Ég hef svo sem ekki farið í gegnum alla Biblíuna með prófið en miðað við að hafa þó lesið hana alla og ýmislegt í henni oftar en einu sinni þá er ég nokkuð viss um að það er næstum engin frásaga sem stenst prófið þar, ef nokkur. Markúsarguðspjall í heild sinni nær ekki þessu prófi en þar er einmitt frásögu dagsins að finna. Í þessu guðspjalli er aðeins ein kona sem ávarpar Jesú en flestar eru þær hljóðar og fáar hafa nafn.

Kona dagsins
Kona dagsins er konan sem hellti dýru smyrslunum yfir höfuð Jesú við afar lítinn fögnuð viðstaddra. Kona dagsins er þögul. Hún gengur að Jesú, sem er staddur í matarboði, og hellir yfir hann sínum fínustu og bestu smyrslum.

Hún segir ekkert.

Hún kom í boðið, braut buðkinn (baukinn eða kerið) og hellti yfir Jesú. Þetta var allt sem hún gerði.

En fólkið varð reitt.

Það kemur ekki fram hvaða fólk þetta var þarna í boðinu en það er talað um það sem „nokkra“ og þá er væntanlega átt við nokkra menn og hluta af gestunum. Kannski voru þetta lærisveinar Jesú eða hluti þeirra. Þetta voru í það minnsta boðsgestir í veislunni og það má leiða líkum að því að þetta hafi að mestu- eða öllu leyti verið karlmenn.

Skiptir það þó einhverju máli að þetta hafi að mestu leyti verið karlmenn og aðeins ein kona sem hvorki hafði nafn né sagði orð? Skiptir einhverju máli að Jesús tók málstað konunnar og sagði að hennar yrði minnst um aldur og ævi og að hún hefði í raun veirið að smyrja hann hinnstu smurningu fyrir dauða hans?

Getur verið að þetta sé svo einfalt að þarna séu bara karlar í karlaheimi sem þoli ekki að einhver kona komi inn og sé að trufla samkomuna þeirra?

Já, ég held að þetta skipti allt máli. Kyn fólks í textum og myndum, sem ekki eru nálægt því að standast Bechdel-prófið, skiptir máli því hér er yfirleitt um að ræða sögur sem sagðar eru af körlum og fjalla í raun og veru um karlmenn og heim þeirra. En ég held að auk þessa segi þess saga okkur ýmislegt annað.

Tuðarar
Gestirnir láta þessa þöglu konu, sem ryðst inn í þeirra örugga heim og gefur Jesú það dýrmætasta sem hún á, fara í taugarnar á sér. Gestirnir í sögunni eru leiðinda tuðarar.

En hvenær verðum við tuðarar? Er það ekki þegar okkur er ógnað, þegar við áttum ekki hugmyndina sjálf? Er það kannski þegar einhver ómerkileg kona eða jafnvel stelpa þykist vera eitthvað merkilegri en við?

Við förum að tuða þegar einhver kemur með nýja hugmynd og framkvæmir eitthvað óvenjulegt. Við tuðum þegar einhver, sem á bara að halda sig á sínum stað úti í horni, fer að taka pláss. Við verðum tuðarar þegar einhver fær athyglina fyrir að segja þetta sem við vissum alveg og virðist vera betri eða merkilegri manneskja en við fyrir vikið.

Við getum öll verið tuðarar þó við viljum það ekki.

Ég er alls ekki viss um að allir gestirnir sem pirruðu sig á konunni hafi verið vondir menn. Það er ekki einu sinni víst að þeir hafi verið neitt sérstaklega leiðinlegir. En þeir áttu erfitt með það sem konan gerði. Hún kom þarna inn þögul, gaf Jesú það besta sem hún átti og svo varði Jesú hana. Hann sem var þeirra leiðtogi og vinur. Ekki hennar!

Það sem tuðararnir gera í þessum aðstæðum er að þeir fara að keppast við að finna góð rök gegn því sem konan gerði, rök sem halda. Og það besta sem þeir finna er að smyrslin séu svo dýr að það hefði verið miklu gáfulegra fyrir hana að selja þau og gefa fátækum andvirðið. Hún hefði verið miklu betri manneskja ef hún hefði gert það. Fjárhagsrökin eru svo sterk.

Við sjáum þetta allt í kringum okkur í dag. Þegar einhver vilja hjálpa flóttafólki og hælisleitendum þá eru gjarnan notuð þau rök, af þeim sem eru á móti, að betra sé að nota peninga og krafta í að hjálpa fyrst Íslendingum sem þurfa hjálp en svo sé hægt að nota afganginn í útlendingana. Þegar kirkjan fær sínar lögbundnu greiðslur frá ríkinu af kirkjujörðunum sem ríkið tók yfir þá heyrast alltaf raddir frá þeim sem ekki vilja þjóðkirkju að betra væri að setja peningana í Landhelgisgæsluna eða Landspítalann. Eins og að þessir peningar færu einmitt þangað ef kirkjan væri þurrkuð út. Svona mætti lengi telja. Þegar við verðum hrædd, okkur sjálfum eða hugmyndum okkar er ógnað, já eða bara þegar við áttum ekki hugmyndina sjálf eða erum á móti þá grípum við gjarnan til raka sem þessa.

Tuðararnir þurfa ekki endilega að vera einhverjir leiðinda karlar sem vilja að konur sitji úti í horni og séu ekkert að vilja upp á dekk. Tuðararnir geta verið við öll þegar við verðum óörugg og óttaslegin. Þá getum við öll orðið fúl/l á móti.

Bechdel, konan og tuðararnir
Við heyrðum í dag um konu sem sagði ekkert en gerði margt. Hennar er minnst enn í dag vegna sinna góðu verka, vegna þess að hún smurði Jesú hinstu smurningar. Hún þurfti ekki að segja orð til þess að komast á blöð sögunnar, til þess að um hana yrði prédikað. Þessi kona er hver einasta hugrakka manneskja sem stendur upp fyrir því sem hún trúir á og er henni kært. Og það þarf ekki alltaf að snúast um eitthvað stórkostlegt. En þegar þú ert þessi manneskja (hvort sem þú ert kona eða karl) þá máttu alltaf gera ráð fyrir að mæta tuðurunum. En vertu viss, þeir hafa ekki áhrif til lengdar. Ekki einu sinni þó þeir reyni að telja fólki trú um að peningarnir eigi frekar að fara í eitthvað annað og vinsælla. Eitthvað sem þeir trúa á.

Ég er nokkuð viss um að við förum öll einhvern tíma í hlutverk tuðarana því lífið er hvorki svart né hvítt. Við erum aldrei aðeins í hlutverki góðu manneskjunnar eða þeirrar vondu. Við erum þær báðar.

Guðspjall dagsins kolfellur á Bechdel-prófinu. Þarna er aðeins ein kona og hún talar ekki við neina aðra manneskju og hvað þá við aðra konu. Það segir okkur að sá sem ritaði guðspjallið hafði ekki mikinn áhuga á orðum eða nöfnum kvenna, í það minnsta ekki í þessu samhengi. Það sama á við um kvikmyndir sem falla á prófinu. Kannski er gott að heimfæra Bechdel-prófið á líf okkar og samfélag. En það er mikið að í samfélagi sem fellur á þessu einfalda prófi. Ég myndi ekki segja að við sem samfélag föllum á prófinu og við erum alltaf að reyna að bæta okkur.

Hér lifa konur og karlar sem tala við hvert annað um svo ótal margt annað en karla. Hér lifa manneskjur sem eru bæði tuðarar og sem fylgja trú sinni og hugsjón. Og mitt í þessu öllu er Jesús sem stendur með konunni sem þorir að fylgja honum þó tuðararnir fari af stað. Og mitt í þessu öllu er Jesús sem sest til borðs með tuðurnum því þeir erum við öll.
Amen.

María hvað?

Meyjan Jane
Á Netflix er að finna þáttaröð sem heitir „Jane the Virgin“. Þesir þættir eru Amerískir en koma upphaflega frá Venesúela og fjalla um hina 23 ára Jane sem hefur ávalt passað vel upp á meydóminn sinn. Móðir hennar og amma hafa báðar hrætt hana á því að ef hún gengi alla leið með manni áður en hún gifti sig þá geti farið fyrir henni eins og móður hennar. En móðir hennar var afar ung þegar hún átti Jane og var aldrei í sambandi við föður hennar.

Jane tók fullt mark á móður sinni og ömmu, enda eru þær hennar helstu fyrirmyndir. Síðan gerist það, þegar Jane fer á sjúkrahúsið í reglubundna skoðun, að læknirinn ruglast á henni og annarri konu sem á að koma í tæknifrjóvgun. Hún gefur Jane sæðið sem hin konan á að fá sem leiðir til þess að Jane verður barnshafandi án þess að hafa misst meydóminn.

Um svipað leyti fer Jane að kenna í kaþólskum skóla. Smá saman breiðist fréttin um óléttu meyjuna út og ung pör fara að koma til Jane og trúa henni fyrir því að þau erfitt með að eignast barn og biðja síðan um að fá að faðma hana. Hún leyfir þeim það en er hálf undrandi á þessum beiðnum. Eftir svolítinn tíma kemst hún að því að nunnurnar sem reka skólann hafa látið búa til lítinn pening með mynd af henni óléttri og látið það berast út að hún hafi orðið barnshafandi með svipuðum hætti og María mey, með kraftaverki og að fólk sem komist í snertingu við hana geti orðið frjósamt. En til þess að fá að faðma Jane þarf að greiða nunnunum ríflega fyrir.

Þessir þættir eru gerðir af miklum húmor og er jafnflókinn og besta sápuópera en skírskotunin til kristindómsins er augljós enda á þetta sér stað í kaþólsku umhverfi þar sem María guðsmóðir á ríkan sess.

Meyfæðingin í Svíþjóð
Fyrir nokkrum árum sagði þávarandi erkibiskup Sænsku kirkjunnar að hann liti á meyfæðinguna sem ljóðræna og táknræna lýsingu á því hvernig Guð kom í heiminn sem manneskja. Hann hafði sem sagt nokkrar efasemdir um það að trúa á meyfæðinguna með bókstaflegum hætti. Þessa túlkun hefur auk þess núverandi erkibiskup tekið undir. Þessu mótmæltu nokkrir trúarhópar harðlega, auk presta og fólks innan Sænsku kirkjunnar, um leið og stór hópur fagnaði þessum ummælum og tók undir þau. Þeir sem mótmæltu einna harðast voru kaþólskur prestur og forstöðumaður hvítasunnusafnaðar í landinu. Þeir sameinuðust í greinaskrifum gegn þessum hugmyndum erkibiskupsins. Þeir, sem áður höfðu verið ósammála um all flest, sameinuðust þarna í þeirri ákveðnu skoðun að María hefði verið hrein mey og aldrei verið við karlmann kennd þegar hún varð þunguð. Kaþólski presturinn hélt þó á lofi kenningum Kaþólsku kirkjunnar sem segja að María hefði ekki verið fædd sem venjuleg manneskja heldur hefði hún fæðst án syndar og verið syndlaus alla ævi. Auk þess taldi hann Maríu hafa fætt Jesú án þjáningar og að hún hefði ekki dáið eins og annað fólk hefður hefði hún verið uppnumin til himna. Hvítasunnupresturinn tók ekki undir nokkuð af þessu þó hann héldi í þá trú að María hefði sannarlega verið hrein mey þegar hún varð þunguð.

Meyja eða móðir?
Og hvað segjum við við þessu öllu saman?

Hugmyndirnar sem koma fram í Jane the virgin lýsa því að það sé vel hægt að verða ólétt og eignast barn í dag án þess að hafa nokkurntíma stundað kynlíf.

Það er hægt í dag.

Það var ekki hægt fyrir meira en 2000 árum.

Gat María virkilega hafa orðið ólétt án þess að fara í tæknifrjóvgun? Var þetta kraftaverk? Eða er þetta helgisaga eins og þær sem löngum hafa verið sagðar til þess að leggja áherslu á að hér hafi verið um getnað og fæðingu stórmennis að ræða?

Í játningum kirkjunnar okkar kemur fram að Jesús sé fæddur af meyju, þ.e. konu sem varð barnshafandi án þess að hefðbundinn getnaður hafi átt sér stað. Þessi játning er sameiningartákn kristinna kirkna í heiminum. En þrátt fyrir það er fullt frelsi innan okkar kirkju að líta á meyfæðinguna með táknrænum hætti og sjá fyrir sér að Jesús hafi verið getinn með sama hætti og aðrar manneskjur og að hann hafi ekki verið neitt minni Guð fyrir því. Ef  Guð getur látið konu verða barnshafandi án þess að hafa verið með karlmanni þá hlýtur Guð einn að vera fær um að láta konu sem verður barnshafandi á venjubundinn hátt, fæða frelsara heimsins.

Þú hefur frelsi til að trúa því að María hafi verið meyja eins og sagt er í Biblíunni.

Þú hefur frelsi til að trúa því að hún hafi orðið ólétt af Jesú með hefðbundnum hætti.

En þú hefur ekki frelsi til að trúa því að það hafi gerst með tæknifrjóvgun. Sú tækni var ekki til þá.

Hverju sem þú trúir um þetta þá dregur það ekkert úr áhrifum Maríu móður Guðs. Ungu konunnar sem var treyst fyrir stóru hlutverki og ætti að hafa svo miklu stærri sess í kirkjunni okkar en hún hefur í dag.

María er mikilvæg fyrirmynd í kirkju sem er að mörgu leyti karllæg. Hún er ekki fyrirmynd vegna hreinleika, flekkleysis eða fullkomnunar. Hún er fyrirmynd vegna þess að hún var hugrakkur töffari sem sagði JÁ við verkefni sem setti allt líf hennar á hvolf.

Hún er ekki fyrirmynd vegna þess að hún fæddi barn án sársauka heldur vegna þess að hún fæddi barnið með sama hætti og konur hafa  gert alla tíð gert. Kannski fékk hún grindargliðnun og morgunógleði. Kannski fylltist hún af bjúg og fékk í bakið. Og það eru einmitt þessir hlutir sem gera hana að mikilvægri fyrirmynd fyrir hinn kristna heim. María er fyrirmynd vegna þess að hún var venjuleg manneskja sem var trúað fyrir stóru hlutverki.

Listaverkið Móðirin eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur sem nú hangir í Grafarvogskirkju getur að vissu leyti  verið vísun í Maríu móður Guðs. Konuna sem er heilög vegna þess að hún fæddi Jesú Krist inn í þennan heim. Konuna sem er heilög vegna þess hversu mennsk hún var. Hægt er að sjá þetta verk sem kvensköp, þetta líffæri sem svo oft hefur verið tengt skömm og ljótleika en sem um leið hefur gefið næstum öllu mannkyni líf og ætti því miklu fremur að vera heilagt og upphafið. Gullþræðirnir í verkinu sem teygja sig til himins minna okkur á þræðina milli hins jarðneska og hins himneska og minna okkur á að þetta er tengt órofa böndum. Þetta verk er tilraun til afbælingar og í þessu verki mætast allar konur.

Guð fól Maríu stærsta hlutverk sem hægt er að hugsa sér.Á boðunardegi Maríu langar mig til að þú vitir að Guð felur þér stórt hlutverk. Þín bíður stórt hlutverk og mögulega hefur þér verið falið það nú þegar. Það er þó ekkert víst að þér finnist nokkuð til þess koma því mælikvarði okkar og Guðs er ekki alltaf sá sami. Við getum ekki öll fætt frelsara heimsins en við getum öll valdið stórum hlutverkum sem Guð trúir okkur fyrir, karlar sem konur. Það getur vel verið að þú munir aldrei komast að því hvert þitt stóra hlutverk, eða verkefni, var því það gagnaðist annarri manneskju sem aldrei lét þig vita hvað þú skiptir hana miklu máli. En ég er sannfærð um að Guð treysti þér fyrir mikilvægu hlutverki.

Trúir þú því?

Ég trúi því.

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Grafarvogi á boðunardegi Maríu 2019

Erkitýpur og ofurkonur

Hér á eftir eru fjórar hugleiðingar um erkitýpur og ofurkonur. Tekist er á við erkitýpurnar Maríu og Evu, þekktustu kvenpersónur Biblíunnar. Ofurkonan er tilbrigði við texta úr Orðskviðunum og hver þekkir ekki ofurkonu samtímans? Allar mætast þessar konur í Móðurinni, verki Kristínar Gunnalugsdóttur, myndlistarkonu sem nú hangir í kapellu Grafarvogskirkju. Verkið fyllir næstum heilan vegg í kapellunni og er brúnt með gylltum þráðum er teygja sig til himins.

Höfundar eru Arna Ýrr Sigurðardóttir, Guðrún Karls Helgudóttir og Kristín Gunnlaugsdóttir.

Eva
Þetta var allt hennar sök. Það var hún sem valdi að hlusta á snákinn og láta freistast í stað þess að vera sterk. Í stað þess að vera hlýðin og góð. Hún óhlýðnaðist og þannig var það hennar verk að hið illa kom inn í heiminn sem fram að því hafði verið sannkölluð paradís.

Hann hafði ekkert með þetta að gera. Hún tældi hann. Hún fékk hann til þess að fá sér bita af hinum forboðna ávexti. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði hann sjálfsagt látið þetta vera og lifað glaður og góður í paradís.

Hún fékk hann til þess að kaupa vændi. Hann hefði aldrei gert það nema vegna þess að konan tældi hann. Þetta var allt henni að kenna, ekki honum.

Hún fékk hann til að lemja sig því hún ögraði honum.

Hún fékk hann til að áreita sig því hún var í svo stuttu pilsi.

Hún er konan sem allir karlar þrá en enginn vill giftast því hún er hættuleg. Hún hlustaði á snákinn, varð forvitin og lét til leiðast að bragða á hinum forboðna ávexti og því heita strippklúbbar eftir henni, Eva. Þess vegna heita verslanir með kynlífsleikföng eftir henni, Eva. Þess vegna er henni refsað af fólki með því að vera ávalt sú seka. Og henni er refsað af Guði með því að þjást þegar hún fæðir börn.

Illskan kom inn í heiminn vegna Evu sem hlustaði á snákinn og fékk sér bita af ávextinum og bauð Adam með sér. Adam fékk sér vissulega bita líka en hann hefði aldrei gert það ef Eva hefði ekki átt frumkvæðið.

Eva er upphaf illskunar í heiminum. Hún stendur fyrir allt sem er hættulegt en um leið er hún svo áhugaverð…

Eða hvað!  Getur verið að erkitýpan Eva sé eitthvað allt annað og meira en þetta?

Er hún kannski konan sem þorði að verða fullorðin og horfast í augu við dauðann og endanleika lífsins. Konan sem þorði að fá sér bita á ávextinum og þroskast og sjá lífið eins og það er.

Var Eva kannski konan sem þráði þekkingu og visku og tók því ákveðna áhættu sem varð til þess að hún varð að horfast í augu við raunveruleikann? Var Eva kannski konan sem vildi ekki lifa í blekkingu, þekkingarleysi og barnaskap?

Snákurinn sagði henni satt. Hann laug engu. Hann sagði að hún myndi læra að þekkja hið góða frá hinu illa. Er það ekki einmitt það sem við þurfum til þess að komast af í heiminum? Að losa okkur við barnaskapinn og útópíuna og eilífa paradís og öðlast kjark til þess að horfast í augu við heiminn eins og hann er?

Hluverk Evu í hinni ljóðrænu frásögn í fyrstu Mósebók var ekki að kollvarpa heiminum og gera hann að verri stað. Hið illa er ekki hennar sök. En Eva hafði kjarkinn til þess að takast á við heiminn og hætta að lifa í daumi. Hún vildi öðlast þekkingu. Hún vildi þroskast. Hún vildi verða fullorðin.

Eva er ekki ein erkitýpa. Eva er margar týpur. Hún er týpan sem þráir þekkingu og fróðleik. Sú sem sér heiminn eins og hann er og tekst á við hann eftir því. Kannski er hún vændiskonan sem tælir aumingja karlinn Kannski er hún háskólaprófessorinn eða hótelþernan sem fór í verkfall á föstudaginn var. Eva er þú og Eva er ég. Við erum Eva.

Freistingarsagan er sagan um okkur mannfólkið. Hún fjallar um sársaukann sem fylgir því að verða fullorðin. Kannski er paradís ekki góður staður fyrir okkur þegar upp er staðið því við þurfum að læra að þekkja munin á góðu og illu. Konan sem öðlast þekkingu á auðveldara með að bjarga sér og lifa af í þessum heimi. Kona sem þekkir réttindi sín getur nýtt sér þau fremur en kona sem veit ekki hvaða möguleika hún hefur. Kona sem veit að það er ekki í lagi að brjóta á henni er líklegri til þess að koma sér út úr vondum aðstæðum en sú sem er alin upp við það að þetta séu hennar einu örlög.

Þekkingin bjargar ekki öllum konum. Hún bjargar ekki öllu. En hún getur breytt miklu. Þökk sé Evu sem hafði kjarkinn til þess að sækja hana.
Höf. Guðrún Karls Helgudóttir

María
Við þekkjum öll Maríu. Guðsmóðurina. Fyrirmynd allra kvenna, annáluð fyrir auðmýkt, hógværð, mildi, kærleika, fórnfýsi, og undirgefni. María er sú sem tekur örlögum sínum með æðruleysi. María er sú sem efast ekki um orð Guðs. María er sú sem hlýðir og gerir það sem henni er sagt. María er hin fullkomna kona. Svo fullkomin að hún verður ófrísk án þess að lifa kynlífi. Svo fullkomkin að hún gengur með og fæðir son sinn, án þrautar. Án morgunógleði. Án grindargliðnunar. Án meðgöngusykursýki. Án þess að fá bjúg. Án þess að þurfa mænudeyfingu og hláturgas. María er sú sem við eigum allar að vera, sú sem allir karlmenn þrá. Ekki sem ástkonu, heldur sem hina fullkomnu eiginkonu og hina fullkomnu móður. María er sú sem stendur að baki manni sínum og styður hann í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Sú sem fyrirgefur eiginmanninum þegar honum verður laus höndin. Sú sem ver manninn sinn þegar hann verður fyrir skynsemisrofi og kaupir óvart vændi, því að hún er ekki nógu skilningsrík. Sú sem tekur ábyrgð á óviðeigandi hegðun og biðst afsökunar á því sem ekki er henni að kenna.

María nýtur náðar Guðs. Í gegnum tíðina höfum við skilið það þannig að hún sé útvalin, og hafi áunnið sér náð Guðs í gegnum móðurhlutverkið. En engillinn segir ekki við hana: Þú sem munt njóta náðar Guðs ef þú gerir það sem þér er sagt. Hann segir: Þú nýtur náðar Guðs. Og María spyr spurninga. Hvernig má þetta verða? Og engillinn virðir hana svars.  Og María samþykkir að taka að sér verkefnið sem henni er falið, hún segir já!

Hvað ef María hefði sagt nei? Hvað ef María hefði sagt: Nei, ég get ekki hugsað mér þetta hlutverk. Þetta eru þau örlög sem flestar ungar, ógiftar konur, óttast mest í lífinu. Að verða ófrískar utan hjónabands. Það er of dýrkeypt. Það mun jafnvel kosta mig lífið.

Hefði María getað sagt nei? Kannski reyndi hún það. Kannski sagði hún nei… Kannski hafði hún reynt að berjast gegn þeim sem nauðgaði henni. Manni sem neytti aflsmunar og kom vilja sínum fram við hana. Kannski hrópaði hún Nei!

Við erum allar María. Við höfum ekki alltaf val. Við reynum stundum að berjast við ofurefli. Við reynum stundum að segja Nei, og það er ekki hlustað á okkur. Og um leið eigum við að vera prúðar og stilltar. Taka því sem að höndum ber. Vera fullkomnar. En við erum það ekki. Við erum manneskjur af holdi og blóði. Eins og María. Og eins og María njótum við náðar Guðs. Við erum Guði þóknanlegar. Ekki vegna þess að við ölum börn, ekki vegna þess að við erum stilltar og prúðar, heldur einfaldlega vegna þess að við erum elskuð Guðs börn, hluti af Guðs góðu sköpun.
Höf. Arna Ýrr Sigurðardóttir

Tilbrigði við Orðskviðina 31. 10-31:

Dugmikla konu, hver þekkir hana?
Hún er dýrmætari en perlur.
Maki hennar treystir henni
og það er gott að vera með henni.
Hún gerir lífsförunauti sínum gott og er
honum trú alla ævidaga sína.
Hún tekur til og setur í þvottavél,
henni fellur sjaldan verk úr hendi.
Hún er verslar í matinn þó Bónus
sé ekki í leiðinni.
Hún fer snemma á fætur,
hitar kaffi, tekur til morgunmat handa öllum
og kannar hvort allir fjölskyldumeðlimir þekki
verkefni dagsins.
Ef hana langar í nýja skó kaupir hún þá og
ef hún vill skipta um lit á veggjunum í stofunni,
málar hún þá.
Hún fer í ræktina þrisvar í viku, lyftir lóðum,
hleypur á brettinu og æfir jóga.
Hún finnur að það sem hún gerir skiptir máli,
veit að hún er í ábyrgðarmiklu starfi
og stundum þarf hún að sitja við tölvuna
fram eftir kvöldi og ljúka við það sem hún
náði ekki að gera yfir daginn.
Hendur hennar renna eftir lyklaborðinu
þegar hún skapar nýja heima í tölvunni,
þegar hún greiðir reikningana.
Hún heimsækir eldri ættingja sína þegar hún getur
og hún gefur reglulega í Hjálparstarf kirkjunnar.
Hún býr börnin sín vel fyrir veturinn svo þeim verði
ekki kalt á leikskólanum.
Hún er glæsileg til fara.
Blandar saman notuðum fötum og nýjum.
Hún flokkar ruslið og
fer með allt sem hægt er í endurvinnslu.
Hún er bjartsýn og sjálfsörugg.
Hún er sátt við sjálfa sig.
Í því felst glæsileiki hennar.
Hún bloggar af kærleika
og reynir að tala vel um allt fólk.
Hún er börnum sínum góð fyrirmynd og
á trúnað þeirra og makans.
Hún er dugleg en kann líka að
slappa af og horfa á góða mynd í sjónvarpinu.
Börnin hennar vilja líkjast henni og maki hennar
hrósar henni.
„Margar konur hafa verið til fyrirmyndar
en þú tekur þeim öllum fram.“
Kynþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en trúuð kona á kreppu tímum á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta vinnu sinnar og verk hennar
munu að lokum vekja athygli.
Þekkir þú þessa konu? Ég þekki hana.

Ofurkonan
Ég þekki líka konuna sem leyfir sér að slappa af fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða við handavinnu í stað þess að setja í þvottavél eða taka til.

Ég þekki líka konuna sem sér til þess að verkaskipting hennar og makans sé jöfn.

Ég þekki konuna sem veit að hún er með lægri laun en maðurinn sem var ráðinn um leið og hún og gegnir samskonar starfi. Hún getur ekki gert neitt í því þar sem launaleynd ríkir í fyrirtækinu.

Ég þekki konuna sem virkar svo sterk og sjálfsörugg út á við en verður fyrir stöðugu ofbeldi og niðurbroti heima hjá sér. Frá manneskjunni sem hún deilir með borði og sæng.

Ég þekki konuna sem er með hærri laun en maki sinn og hann samgleðst henni.

Ég þekki konuna sem nær ekki endum saman því hún er einstæð með þrjú börn og á örorku.

Ég þekki konuna sem prumpar aldrei fyrir framan manninn sinn því hún er dama.

Ég þekki allskonar konur.

Mikið væri gaman að vera þessi ofurkona sem hér var lýst og verða aldrei þreytt. Eða að verða bara hæfilega þreytt svo ég sofi vel.

En hver er þessi ofurkona? Er hún til?

Já, þessi kona er til og við þekkjum hana en mögulega er hugtakið „ofurkona“ þó ekki réttnefni því það er ólíklegt að ein manneskja geti haldið út allan þennan fullkomleika sem hér var lýst.

Ofurkonan er hver einasta kona sem gerir sitt besta í heimi þar sem konum hefur verið gefið að sök að hafa komið með illskuna inn í heiminn, að vera orsök alls ills. Ofurkonan er sú sem lifir af í heimi þar sem konan á helst að vera bæði hrein mey og móðir samtímis og segja já við örlögum sínum hver sem þau eru.

En ofurkonan er líka konan sem segir nei við þeim örlögum sem henni eru ætluð og er móðir án þess að vera meyja og er meyja án þess að vera móðir.

En ofurkonan er líka konan sem leitar þekkingar, og horfir framan í forgengileikann og neitar að bera sökina á illskunni sem á hana er klínd.

Ofurkonan er þú og ég. Ofurkonan er allar konur og allar mætast þær í Móðurinni. Í verkinu þar sem hið jarðneska er orðið heilagt og þar sem hið heilaga er jarðneskt.
Höf. Guðrún Karls Helgudóttir

Móðirin.
Verkið Móðirin fjallar um þann jarðneska veruleika sem við þekkjum og æðri veruleika sem við leitumst við að finna. Jarðbrúni liturinn vísar til ilmandi moldarinnar, það er jörðin sem við komum frá og hverfum til.  Gullsaumurinn og upphafin blómsköpin eru eins og línur milli stjarna á himinfestingunni um hánótt og breiða úr sér. Þannig sameinar verkið himinn og jörð, hið andlega og hið veraldlega.

Í gegnum tíðina hefur sú hefð myndast að konan sé skilgreind útfrá aðgreindum hlutverkum.  Það er móðurhlutverkið og það að fórna sér fyrir aðra. Það er skækjan eða sú sem er sjálfstæð og í tengslum við hvatir sínar. Og nú hefur ofurkonan í samtímanum bæst við, konan sem getur allt og virðist engin takmörk sett. Ég get ekki ímyndað mér að konur hafi búið þessar skilgreiningar til um sjálfa sig – og þótt við gegnum mörgum hlutverkum í lífinu, bæði karlar sem konur, eru þau ekki aðskild. Öll höfum við marga fleti og mismunandi þarfir í okkar persónulega líf.  Ég þekki enga konu sem býr ekki yfir öllum þessum hlutverkum, sameinuðum í einum og sama líkamanum og lífinu. 

Með saumuðu veggteppi er vísað til aldagamallar hefðar kvenna og hannyrða. Konur saumuðu og sýndu þar með stétt sína og stöðu, hvort sem var að vefa veggteppi fyrir kalda hallarveggi, gullsaum fyrir kirkjuna, eða staga í sokka og sauma allt sem þurfti fyrir heimilið. Hversu margar konur hafa ekki saumað út rósir?

Við þekkjum flest klukkustrenginn, útsaumuð mynd sem féll af hógværð inn í þröngt bil einhverstaðar til hliðar á heimilinu, gjarnan milli dyra.

Myndmál klukkustrengsins Móðirin, krefst allrar þeirrar stærðar sem möguleg er og er löngu vaxin uppúr hógværðinni að sitja hljóð til hliðar. Verkið tekur sér stórt pláss því umræðan sem það skapar er mikilvæg í nútímasamfélagi.  En það býr einnig yfir mýkt andlegra sanninda, jafnvægis, sáttar og kærleika.

Kvensköp eru tabú í samtímanum.  Fátt hefur valdið jafn mikill hneykslun eða verið misnotað  gegnum tíðina, bjagað og bælt og þetta mikilvæga líffæri kvenna. Fyrir mér er þetta verk tilraun til afbælingar en vísar á sama tíma til andlegs og veraldlegs veruleika.

Í Móðurinni mætast allar konur og þegar ég lít til verksins segir það mér : Öllu er  óhætt, allt er gott, harla gott.
Höf. Kristín Gunnlaugsdóttir

Hugleiðinar þessar voru fluttar í útvarpsmessu í Grafarvogskirkju 10. mars 2019.

Freki karlinn, rithöfundurinn og persónurnar fjórar

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 10. febrúar 2019 blockquote class=“wp-block-quote“>

„Það var einu sinni rithöfundur sem skrifaði sögu:

Það var einu sinni forseti í Ameríku og hann var valdamesti maður í heimi.  Þegar hann ræskti sig þá þögnuðu allir.  Ef hann lét eitt orð falla þá hlustaði fólk.  Ef hann vildi framkvæma eitthvað þá hafði hann her fólks í kringum sig sem sá til þess að uppfylla óskir sínar.

Það var einu sinni fátækur drengur í suður Ameríku og hann var algerlega valdalaus.  Hann ræskti sig oft, já hann fékk heilu hóstaköstin.  Ef hann sagði eitthvað þá var enginn sem hlustaði.  Hann óskaði sér að hann ætti mömmu, hús með þaki og einn súpudisk en það var enginn til staðar sem gat hjálpað honum.

Það var einu sinni undur falleg og fræg leikkona.  Hún sást reglulega í sjónvarpi og á kvikmyndatjöldum.  Allir dáðu hana og vildu kyssa vanga hennar.  Hún stóð á sviðum um allan heim og fékk þunga verðlaunagripi og stóra blómvendi.

Það var einu sinni lítil stúlka sem leit vægast sagt mjög undarlega út.  Önnur kinn hennar var risa stór og á hinni kinninni var munnurinn, allur skakkur.  Allir sem sáu hana hugsuðu; aumingja stúlkan, mikið er hún ljót!  En hún var með brún, ofboðslega falleg og góðleg augu.

Það var eitt sinn rithöfundur sem sat við tölvuna sína og reyndi að hugsa um þessar fjórar persónur.  Hvað átti að gerast með þær? hugsaði hún.  Þetta má ekki halda áfram svona.  Þá datt henni í hug að láta Guð stíga niður til jarðar.

Dag einn gerðist það sem sagt, að Guð kom til jarðarinnar.

Nú, hugsaði rithöfundurinn, kemst loksins réttlæti á!  Nú missir forsetinn völdin og kvikmyndastjarnan fær engin blóm og drengurinn fær móður og einhver fer að elska stúlkuna því hún er með svo falleg brún augu!  Ha! 

Hún ætlaði að láta Guð horfa strangt í augun á forsetanum, nú þyrfti forsetinn að þegja og hlusta!  Nú myndi sá valdamikli steypast af stóli og hin smáu sem hósta verða virt að verðleikum, fá þak yfir höfuðið og meiri völd!  Og allar manneskjur yrðu jafn fallegar og sú sem hefur fengið of mikið af blómum myndi missa þau til þeirra sem flestum þykja ljót. 

Já þannig ætlaði rithöfundurinn að skrifa, en það varð ekki þannig.

Guð stóð bara þarna þegjandi og horfði á þau fjögur.

“Ég elska ykkur öll” sagði Guð.  “Ég elska ykkur svo mikið.”

Nú varð rithöfundurinn hissa. 

“Ég er svo einmanna, það er eins og ég sitji í stórri svartri holu” sagði forsetinn.  “Ég er svo þunglyndur”.

“Enginn elskar mig” sagði leikkonan.  “Fólk vill bara sjást með mér svo það geti sjálft orðið frægt”.  “Öllum er í raun sama um mig”.

“Mér er ekki sama um þig”, sagði Guð.  “Ég skil að það geti verið erfitt að vera alltaf í sviðsljósinu og að vera fallegust af öllum. Ég vorkenni þér. Ég elska ykkur öll. Ég elska þau sem allir skilja að eigi bágt.  En ég elska líka þau sem eiga bágt þrátt fyrir allt.”

Nú skildi rithöfundurinn ekki neitt í neinu.  hvað var að gerast með söguna hennar.  Hún var orðin ónýt.  Hann ætlaði að hætta að skrifa og eyða því sem hún var búin með.

“Hjálp”, hrópuðu þau öll fjögur.

Guð hristi höfuðið.

“Ég get bara elskað ykkur öll og opnað augu ykkar.

Síðan hvarf Guð jafnskjótt og Guð hafði komið.

Rithöfundurinn vissi ekki hvað hún ætti að gera við söguna.  Var hún búin?  Eða var mikið eftir?  Hún gat bara sett punkt og vonað að eitthvað myndi gerast.“

Freki karlinn og breytingarnar
Þessi flökkusaga getur gefið ágæta lýsingu á hlutverki Guðs í heiminum. Hlutverki sem felst ekki í að breyta heiminum fyrir okkur heldur að opna augu okkar og elska okkur, meira en við getum nokkurn tíma ímyndað okkur.

Ég held að við sem samfélag og allur hinn vestræni heimur standi frammi fyrir miklum breytingum einmitt nú, þó sannarlega séum við komin misjafnlega langt á veg. Það sem er að gerast er að „freki karlinn“ er að missa vald sitt á mörgum sviðum. Hann stjórnar ekki umræðunni á jafn sjálfsagðan hátt og áður.

Freki karlinn í þessu samhengi eru fyrst og fremst valdamiklir karlar (og einstaka konur) sem hafa getað farið sínu fram og komið fram við fólk (oftast konur) eins og þeim hefur sýnst. Þeir hafa gjarnan umgengist ákveðið fólk (yfirleitt konur) sem hluti eða leikföng án þess að nokkur manneskja hafi lagt í að mótmæla því.

Það er nefnilega erfitt að vera ekki í náðinni hjá „freka karlinum“.

„Freki karlinn“ er ekki endilega ákveðin manneskja eða ákveðnar persónur. Hann getur einnig verið kerfi eða óljós valdaöfl í samfélginu.

„Freki karlinn“ er að missa tökin því þolendur hans hafa tekið ráðin í sínar hendur. Þolendurnir nota aðrar aðferðir en „freki karlinn“ til að mótmæla og koma sínum boðskap á framfæri og það þolir ekki „freki karlinn“.

Þessar breytingar eru mörgum erfiðar því öll erum við hluti af þessu samfélagi sem „freki karlinn“ hefur stjórnað. Það er sársaukafullt að missa völd og það er sársaukafullt að vera allt í einu komin með völd og áhrif sem við höfum ekki haft áður. Auk þess getur verið erfitt að vera áhorfendur og vita ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga og meðvirknin blossar upp.

Pétur og breytingarnar
Pétur og hinir lærisveinarnir sem fóru með Jesú á fjallið verða fyrir því að augu þeirra opnast. Þeim verður fyllilega ljóst að hér er eitthvað ótrúlegt að eiga sér stað. Þeir öðlast nýjan skilning á lífinu og sjá með eigin augum að Jesús er eitthvað meira en bara venjuleg manneskja. Pétur finnur að eftir þessa reynslu verður ekkert eins og það var áður. Það er óþægileg tilfinning að nokkru leyti því breytingaar, jafnvel þó þær séu jákvæðar, geta verið sársaukafullar. Hann stingur því upp á því að tjalda yfir allt liðið, alla karlana og dvelja sem lengst í stundinni áður en hversdagurinn tekur við á ný og hann neyðist til að vinna úr breytingunum.

Ég held að við sem samfélag séum í svipaðri stöðu og lærisveinarnir á fjallinu. Þessar breytingar sem eru að eiga sér stað hjá okkur eru mörgum erfiðar. Þær eru ruglandi og jafnvel ógnvænlegar. Margir karlmenn eru hræddir við að verða ásakaðir um ofbeldi ef þeir faðma börn eða koma of nálægt konum, þrátt fyrir að flestir þeirra skilji vel að það er stór munur á ofbeldi og „eðlilegum“ og jafnvel innilegum samskiptum. Mörg okkar vilja kannski bara slá upp tjaldbúðum til þess að þurfa ekki að takast á við þetta og vinna úr þessu. Það er nefnilega komið að því að við hugsum svo marga hluti upp á nýtt.

Allt í einu er t.d. bannað að tala niður til kvenna, fatlaðs fólks, samkynhneigðs fólks o.s.frv. Og þetta á jafnvel við um alþingisfólk sem er að fá sér í glas. Og jafnvel sérstaklgea það fólk. Nú má ekki lengur klípa í rassa, káfa á brjóstum eða koma fram við aðra manneskju eins og hún sé leikfang eða eign. Það er komið að því að við þurfum öll að vanda okkur í öllum samskiptum og fyrir sum okkar er það augljóslega flókið.

Já, samfélagið er að breytast. Við erum að breytast…eða það vona ég.

Og á sama tíma gerir Guð ekkert annað en að elska okkur og opna augu okkar.

En er það ekki einmitt það sem við þörfnumst? Við þurfum að opna augu okkar fyrir því sem er satt og rétt til þess að geta breyst og við þurfum ást til þess að geta tekist á við breytingarnar og unnið úr þeim. Við þurfum að finna að við  erum elskuð, hver sem erum og hvar sem við stöndum. Breytingarnar eru nefnilega undir okkur sjálfum komnar. Guð gefur okkur kraftinn til að breytast en Guð breytir ekki heiminum fyrir okkur eftir pöntunum.

Nýtum þennan kærleika Guðs til þess að reyna að breyta því sem opin augu okkar sýna að þarfnist breytinga.
Amen.

Guðspjall: Mark. 9: 2-9