Hljóðar hetjur og stórar stundir

Ein af forréttindum prestþjónustunnar er að fá að deila með fólki stórum stundum í lífi þess. Þetta eru stundir eins og skírn, þegar presturinn fær að biðja fyrir barninu, ausa það vatni lífsins um leið og nafnið er nefnt. Þetta eru stundir eins og hjónavígslur, þar sem fólk játast hvort öðru og biður Guð um hjálp við að deila ævinni saman. Við vitum nefnilega öll að lífið og samverustundirnar með fólkinu okkar eru ekki sjálfsagðar. Þær eru þakkarefni.

Þetta er eitthvað sem við mannfólkið öðlumst dýpri skilning á þegar við eldumst, þroskumst og bætum lífsreynslu í sarpinn.

Og einmitt þess vegna eru þessar athafnir svo mikilvægar. Við vitum ekki hvað bíður okkar handan við hornið og því er mikilvægt að fagna og gleðjast yfir því góða sem lífið færir okkur.

Önnur mikilvæg stund sem presturinn fær að deila með fólki er útförin og undirbúningur fyrir jarðarför og kistulagningu. Þessar kveðjustundir eru viðkvæmar og einstaklega dýrmætar þeim er kveðja. En þessar stundir eru einnig dýrmætar fyrir prestinn. Þær eru dýrmætar fyrir prestinn vegna þess að við þennan undirbúining fáum við að kynnast lífi og sögu fólks á annan og dýpri hátt en annars. Og þetta eru ástæðurnar fyrir því að presturinn ber einstaka virðingu fyrir því að fá að vera þátttakandi í þessari athöfn og lítur ekki á það sem sjálfsagðan hlut.

Nú jarðsyng ég fólk nokkuð reglulega og hver einasta athöfn er einstök og hefur djúpstæð áhrif á mig. Eitt af því sem snertir mig, og er mér oft hugleikið, er hversu mikið er til að fólki sem hefur lifað fyrirmyndarlífi, þ.e. fólki sem ætti ekki síður að vera manneskjur ársins um áramótin og að fá Fálkaorður afhentar af forseta Íslands. Staðreyndin er bara sú að það er agnarlítill toppur sem kemst í fréttir og fólk heyrir af sem fær þessar átyllur á meðan meirihluti fólks lifir í það minnsta jafnmerkilegu og jafnvel hetjulegu lífi en ósköp fáar manneskjur fá vitneskju um það. Stór hluti fólks hefur auk þess engan áhuga á að bera afrek sín á torg. Oft er það vegna þess að þeim þykir þetta ekkert merkilegt heldur líta þau á sinn hetjuskap sem hluta af því að vera manneskja og því engin verðlaun nauðsynleg.

Þessi afrek sem ég fæ að heyra um, nánast í hvert sinn sem ég kynnist ævisögu manneskju eru hlutir eins og að kona eða maður elur upp góðar, réttsýnar og duglegar manneskjur. Þetta eru sögur af hugsjónum fólks sem hafa breytt miklu fyrir þau sjálf og annað fólk. Þetta eru afrek eins og að taka þátt í stjórnmálum, búa börnum öruggt og kærleiksríkt heimili, gefa vandalausum ómældan tíma og umhyggju. Þetta eru afrek eins og að trúa, líka þegar á reynir og lífið verður erfitt, að elska, líka þegar fólk á enga ást skilið og sýna æðruleysi og skilning í erfiðum aðstæðum.

Titlar og orður, val á fólki ársins sýnir okkur aðeins örlítið brotabrot af því hversu fullkomlega dásamlegt fólk getur verið. Oft eru þau, sem eiga helst skilið að fá viðurkenningu, fólk sem hefur engan áhuga á athygli og viðurkenningu. Og oft er þetta fólk sem vinnur sín afrek í hljóði og er sátt við sitt hlutskipti.

Með þessu vil ég ekki gera lítið úr þeim sem fá athygli fyrir afrek sín. Þau eru svo sannarlega vel að þeirri athygli komin. Aftur á móti vil ég vekja athygli á því að það er til svo mikið af fólki sem eru sannar hetjur án þess að við munum nokkurntíma heyra af þeim.

Þegar prestur er viðstaddur stórar stundir í lífi fólks þá er hún/hann ávallt í aukahlutverki. Það er fólkið sem ber barnið sitt til skírnar eða ástvin sinn til grafar sem er í aðalhlutverki. Laun prestsins eru þau að henni eða honum er treyst til þess að vera með á þessari stóru stundu í lífi fólks og taka þátt í broti af lífssögu fólks. Ég ber óendanlega virðingu fyrir því.