Vertu eins og Guð, vertu manneskja

Prédikun aðfangadags 2018

Heilaga fjölskyldan
Mig hefur lengi langað til að eignast hina heilögu fjölskyldu með hirðum, vitringum, dýrum og öllu…þ.e. styttur. Í nokkurn tíma hef ég alltaf staldrað við og skoðað vel þegar ég sé fjölskylduna með fjárhúsum og jötu til sölu einhversstaðar en ég enda aldrei á að kaupa þetta. Í fyrsta lagi finnst mér þær yfirleitt of dýrar og í öðru lagi hef ég átt erfitt með að velja. Það er bæði til svo mikið af mjög ljótum og mjög fallegum styttum. En á þessari aðventu lét ég slag standa og skellti mér á fjölskylduna. Ég sá þessar fínu styttur í verslun hér í borg sem er þekkt fyrir góð verð, þær voru nógu fallegar fyrir mig þó ekki fylgdi með fjárhús. Þarna voru þó aðalatriðin, Jesúbarnið í jötunni María, Jósef, þrír vitringar og tveir hirðar. það voru einhver áhöld um það hvort Jósef væri í hópnum og hvort hirðarnir væru einn eða tveir. Við erum reyndar sammála um að við getum alveg ákveðið sjálf hver er hvað og að einn hirðirinn er kona.

Það er eitthvað við þessa „mynd“,  af Maríu, Jósef, barninu í jötunni sem snertir okkur. Þessi mynd sem er svo jarðnesk og venjuleg en um leið svo heilög.

Í kvöld mætist hið hversdagslega, hið jarðneska sem við þekkjum svo vel, hinu heilaga og töfrar verða til.

Vertu eins og Guð, vertu manneskja
Fyrir stuttu sá ég svolítið óvenjulega „mynd“ eða sýningu með heilögu fjölskyldunni. Það var í kirkju í Þýskalandi þar sem stóð yfir brúðusýning þar sem fólk og atburðir úr kirkjusögunni og Biblíunni höfðu verið sett upp í kringum Maríu, Jósef og Jesúbarnið og í bakgrunni voru háhýsi stórborgar. Foreldrarnir með barnið voru þarna í forgrunni en þau voru komin úr fjárhúsinu og lögð á flótta með barnið, María sat á asnanum með barnið og Jósef gekk við hlið þeirra. Í kringum þau var fjölbreytt flóra fólks.

Á einum stað, ekki langt frá móður Theresu, stóð blandaður hópur fólks með kröfuspjald. Þarna voru konur í vændi, uppábúnir karlar og konur, prestar og fátækt fólk. Á kröfuspjaldinu þeirra stóð: „Vertu eins og Guð, vertu manneskja“.

Þessu orð hittu mig í hjartastað en þegar þessi setning er orðaleikur og getur einnig verið þýdd sem, Vertu eins og Guð, vertu mennsk eða sýnu mennsku.

Hvernig getum við sýnt sömu mennsku og Guð?

Manneskjan Guð
Guð gerðist manneskja í litlu barni. Þegar Guð, sem er upphafið að öllu, kærleikurinn sjálfur, ákvað að koma inn í heim mannfólksins gerðist það ekki með valdi og látum. Guð kom inn í heiminn í mesta varnarleysi sem hægt er að hugsa sér, sem lítið barn. Guð var eitt sinn fóstur í móðurkviði og Guð fæddist með sama hætti og öll börn mannfólksins, með öllum þeim áhættum sem því fylgir. Og þegar í heiminn var komið var Guð upp á umhyggju foreldra sinna og umhverfisins komið.

Guð hefði getað komið í heiminn með öðrum hætti en Guð er ekki þannig. Guð velur að treysta okkur fyrir sér. Guð velur að koma til okkar í fullkomnu varnarleysi og treysta okkur.

Það er litla barnið þarna í útihúsinu sem sýnir okkur hvernig manneskja Guð er.

Það er litla barnið þarna í útihúsinu sem sýnir okkur hvernig manneskjur Guð vill að við séum.

Við höfum öll verið í sporum litla barnsins. Við hefjum öll þetta líf í móðurkviði og við höfum öll þurft að treysta á umhyggju foreldra eða fólksins í kringum okkur og umhverfisins. Aðstæður okkar til að byrja með geta verið afar ólíkar og aðstæður Jesú í upphafi voru sannarlega ekki þær einföldustu. Foreldrar hans voru ekki gift og þau flúðu undan yfirvöldum skömmu eftir fæðingu hans. Þau voru flóttafólk um tíma. Það rættist þó ágætlega úr drengnum.

Manneskjan manneskja
Vertu eins og Guð, vertu manneskja.

Hvernig verðum við manneskjur eins og Guð eða hvernig sýnum við sömu mennsku og Guð?

Guð sýndi hina fullkomnu mennsku með því að koma til okkar sem varnarlaust barn og treysta okkur. Það fór vissulega ekki að öllu leyti vel að lokum en það hafði þó þau áhrif að nú meira en tvö þúsund árum síðar erum við enn að tala um hann.

Ég held að við þurfum að leita alla leið aftur til fæðingu barnsins, komu Guðs í heiminn til þess að finna okkar sönnu mennsku. Mennskan okkar er nefnilega fólgin í varnarleysinu. Það er þegar við sýnum það hugrekki að verða berskjölduð, að sýna hver við raunverulega erum og treysta, sem við verðum manneskjur eins og Guð.

Litla barnið í jötunni braggaðist vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður í byrjun og varð maðurinn Jesús sem kenndi okkur meira um ástina og mennskuna en nokkur önnur manneskja hefur gert. Hann kenndi okkur að bera sanna umhyggju fyrir náunganum og sköpuninni og hann sýndi okkur með lífi sínu að þetta snýst allt um að vera sönn og ekta.

Kannski erum við mennskust þegar við tökum niður grímurnar, sýnum hver við erum og þorum að vera sönn og ekta.

Það krefst hugrekkis hjá fullorðnu fólki að sýna hver við raunverulega erum. Það sem er börnunum bæði eðlilegt og nauðsynlegt er fullorðna fólkinu oft um megn.

Myndirnar af heilögu fjölskyldunni geta verið afar fjölbreyttar því lífið er fjölbreytt. Listafólk hefur, í gegnum tíðina, túlkað þessi fyrstu jól með ólíkum hætti því fæðing Guðs í heiminn hefur ekki sömu merkingu í huga allra. Stundum er lögð ofuráhersla á hið jarðneska og hversdagslega en oft er atburðurinn upphafinn alla leið til stjarnanna. Báðar túlkanirnar og allar myndirnar þar á milli eru sannar því þessar „myndir“ eru á mörkum þessa veruleika og annars. Og þegar hið heilaga mætir hinu jarðneska, hinu hversdagslega verða til töfrar. Og þar sem himinn og jörð mætast og renna saman skiljum við að Guð elskar okkur nákvæmlega eins og við erum. Við þurfum ekki að setja upp grímur og þykjast gagnvart Guði.

Í kvöld kemur Guð til okkar í litlu barni og segir: „Ég elska þig eins og þú ert“. Í kvöld mega allar grímur falla því í kvöld erum við heilög eins og litla barnið í jötunni.
Amen.