Að hugsa of mikið – maraþon og kvíði

Kvíðinn minn
Kvíði er eitthvað sem hefur fylgt mér frá því ég var barn. Þá var hugtakið ekki til nema þá í merkingunni að kvíða fyrir einhverju. Það var ekki fyrr en ég var komin yfir tvítugt og búin að eignast mitt fyrsta barn og kvíðinn fór að ágerast að ég fór að leita skýringa og hjálpar. Það var flókið. Ég fór í ýmsar rannsóknir á líkamanum því einkennin voru oft líkamleg, hraður hjartsláttur, sjóntruflanir og straumar eftir vinstra handlegg. Við vitum jú að þessi einkenni geta gefið vísbendingu um annað en kvíða. Það kom jafnvel fyrir að ég vaknaði um miðja nótt með hraðan hjartslátt og leið eins og einhver hefði tekið um hjartað á mér og væri að kreista það. Sársaukinn var nánast óbærilegur í sálinni. Allt var sorglegt og ömurlegt. Mig langaði ekki að halda áfram að vera til en mig langaði samt alls ekki að hætta því. Þegar ég hugsaði til baka voru nokkur tilvik frá barnæsku þar sem ég mundi eftir að hafa liðið svona en það vissi engin þá að það sem var að plaga mig var kvíði og stundum ofsakvíði.

Það var ekki fyrr en ég hlustaði á viðtal við konu í útvarpinu sem sagði frá svipuðum einkennum sem hún kallaði kvíða og þunglyndi að ég skildi að það var ekkert líkamlegt að mér heldur aðeins andlegt. Ég leitaði lækninga í framhaldinu og fékk hjálp.

Ég hef náð góðum tökum á kvíðanum og hann er sjaldan til mikilla vandræða lengur en hann getur þó tekið sig upp á óvæntum stundum og jafnvel þegar ég á síst von á. t.d. þegar ég hleyp í skipulögðum keppnishlaupum.

10 km og hálft maraþon
Ég byrjaði að hlaupa fyrir nokkrum árum og hef, þegar þetta er skrifað, tekið þátt í um það bil tíu slíkum hlaupum. Í fyrsta sinn sem ég hljóp 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu gerðist þetta. Ég fór í hlaupið full eftirvæntingar og taldi mig vel geta hlaupið þetta á um það bil klukkutíma. Ég fór af stað og þetta var svo létt. Ég var full af orku og gaf í. Þegar ég var komin um það bil sex km. kemur brekka og einmitt þá hlaupa “hérarnir“, sem haupa þetta á 60 mínútum, framúr mér. Við þetta gerðist eitthvað og ég fór að efast um sjálfa mig. Ég fylltist vonleysi (þó ég reyndi af veikum mætti að hlusta á bókina sem ég var með í eyrunum og gleyma mér) og þegar ég var komin um það bil 8 kílómetra leið mér orðið svo illa að ég fór að sjá fyrir mér hvernig ég gæti farið út í kant og látið sem það væri að líða yfir mig og hætt hlaupinu. Mér leið eins og ég væri föst í endalausu hlaupi sem mig langaði ekkert til að vera í en mætti alls ekki hætta. Ég hætti þó ekki þrátt fyrir erfiðar hugsanir. Ég bara hélt áfram að hlaupa og lauk hlaupinu á 61 mínútu. Þegar ég var búin sagði ég við fólkið mitt að þetta ætlaði ég aldrei að endurtaka.

Ég stóð við það árið eftir en tveimur árum síðar tók ég aftur þátt og þá var þetta ekkert mál enda var ég bæði í góðu formi og svo hafði ég stjórn á huganum allan tímann. Eftir þetta fylltist ég eldmóði og skráði mig í hálft maraþon í útlöndum. Það ár hljóp ég þrjú hálfmaraþon. Mér gekk vel í þeim öllum og var glöð allan tímann. Enginn kvíði var að angra mig og allt gekk vel.

Þessi velgengni varð til þess að ég ákvað að láta verða af því að hlaupa heilt maraþon. Ég hugsaði sem svo að þar sem gat hlaupið hálft maraþon þá hlyti ég að geta æft fyrir heilt og klárað það. Ákvörðun var tekin og ég skráði mig í maraþon í Amsterdam. Ég æfði vel. Ég var með góða vinkonu sem hlaupafélaga og við vorum með gott fjögurra mánaða prógram sem ég fylgdi næstum því undantekningalaust. Til að byrja með hljóp ég meira en gert var ráð fyrir. Engin meiðsli voru að hrjá mig og ég jók vegalengdirnar eins og gert var ráð fyrir. Svo nálgaðist lengsta hlaupaæfingin fyrir sjálft maraþonið. Þetta voru 32 km. sem ég átti að hlaupa. Ég var stödd í útlöndum og hafði ákveðið nákvæmlega hlaupaleiðina og hlakkaði til enda var betra veður þar en hafði verið á lengstu hlaupaæfingunum á Íslandi vikurnar áður. Daginn fyrir þessa lengstu æfingu fylltist ég svo af kvefi og á sjálfan hlaupadaginn var ég komin með hita. Það fór mjög illa í mig að þurfa að sleppa þessari æfingu. Ég var búin að hlaupa 28 kílómetra tvisvar sinnum sem var lítið mál og tveimur dögum áður hafði ég hlaupið 15 kílómetra eins og ekkert væri. En ég var veik og þurfti að sleppa þessari æfingu.

Það liðu sex dagar þar til ég treysti mér til að hlaupa þessa 32 kílómetra. Það gekk sæmilega þrátt fyrir kvef og mikinn mótvind. Ég kláraði það og var ekkert sérstaklega þreytt á eftir. Eftir þetta fór ég að trappa niður æfingar og undirbúa sjálft maraþonið. Ég fór að lesa allt sem ég gat um maraþon. Las reynslusögur og kynnti mér hvernig fólk undirbjó sig. Ég skoðaði hvernig best væri að haga mataræðinu dagana fyrir hlaup og heyrði í flestum sem ég þekki sem einhvern tímann höfðu hlaupið maraþon. Ég safnaði í sarpinn og reyndi að fylgja öllum leiðbeiningum. Þegar dagurinn nálgaðist fór ég að sofa verr. Ég átti erfitt með að sofna á kvöldin og var þreytt á morgnanna og síðasta hlaupaæfingin gekk illa. Ég var þreytt og fann að öndunin var ekki í lagi.

Heilt maraþon
Svo kom hlaupadagurinn í Amsterdam. Ég dreif mig á fætur. Borðaði aðeins meiri morgunmat en venjulega, bæði hafragraut (kom með haframjölið með mér frá íslandi) og lítið rúnstykki með osti og sultu, bláber, vatn og kaffi. Við fórum með neðanjarðarlestinni á staðinn og allt gekk eins og í sögu. Svo kom að því að ég hljóp yfir startlínuna og hlaupið var hafið. Ég ákvað að hafa ekkert í eyrunum fyrstu 10 – 20 kílómetrana en var tilbúin með hlaðvarp sem var fyndið og skemmtilegt og krafðist engrar einbeitingar. Ég reyndi að hugsa um að hlaupa rólega í byrjun en ég var ekkert glöð. Þarna var fólk í skemmtilegum búningum, fólk sem talaði ólík tungumál. Merkingar á fötum gátu verið fyndnar. Þarna voru hljómsveitir og tónlistarfólk að skemmta hlaupurum á götuhornum og fólk að hvetja. En mér fannst þetta ekkert skemmtilegt. Ég hugsaði bara um hvað ég ætti langt eftir, hvort ég væri ekki örugglega að hlaupa allt of hratt eða allt of hægt og smám saman helltist yfir mig depurð. Ég fann allskonar lyktir. Ég fann steikingarlykt, reykingalykt, kannabislykt og megna svitalykt. Allt þetta pirraði mig. Á ellefta kílómetranum hitti ég hlaupavinkonu mína sem var einstaklega hress og glöð. Hún náði sér í kraft úr öllu því sem var að gerast í kringum okkur og var ekkert að hugsa um hraða eða hvort þetta yrði einhvern tíma búið. Hún fór að spjalla við mig en ég bara þagði. Ég deildi engri gleði með henni. Ég var bara þreytt (á sálinni) og var alls ekki að nenna þessu. Smám saman kom aftur þessi tilfinning, sem ég fann fyrir í fyrsta 10 km hlaupinu, um að ég væri föst þarna og kæmist aldrei í burtu. Svolítið eins og hamstur í hjóli sem aldrei hættir að snúast.

Við hlupum saman nokkra kílómetra og að lokum tók ég stóra ákvörðun. Ég ákvað, og það var ekki auðvelt, að segja henni hvernig mér liði. Að ég væri að drepast úr kvíða. Hún var þá farin að taka eftir því að ég var móðari og þögulli en venjulega, því yfirleitt er það ég sem er blaðrandi allan tímann þegar við hlaupum saman. Hún brást hárrétt við og eftir svolítið samtal um þetta bað ég hana að hlaupa með mér alla leiðina, að fylgja mér í gegnum þetta. Og það gerði hún. Hún talaði og ég þagði. Inn á milli gerði ég reyndar grín að þessri ömurlegu líðan enda er það er eina leiðin fyrir mig þegar þetta verður sem verst. Á tímabili fann ég fyrir því að öndunin varð grunn og að stutt var í oföndun. Kannski ekki að furða enda er erfitt að vera á hlaupum í kvíðakasti.

Þegar við vorum hálfnaðar var mér orðið alveg sama um tímann og fór að ganga í smá stund á nokkrra kílómetra fresti en þau sem þekkja til vita að það er vont að byrja að ganga í svona hlaupi því þá er yfirleitt stutt í næsta labb. Þrátt fyrir þessa ömurlegu líðan næstum allt hlaupið þá var líkaminn í fínu formi. Ég fann ekki fyrir neinu nema svolitlum verk í öðru hnénu sem ég hafði byrjað að finna fyrir um það bil viku fyrr. Þessi verkur ágerðist þó aldrei og háði mér ekki líkamlega, en sjálfsagt andlega.

Þetta fór aðeins að verða auðveldara eftir 32 kílómetra. Þá voru aðeins 10 kílómetrar eftir og ég var ekki lengur jafn heltekin af kvíðanum. Ég gat þó ekki glaðst yfir neinu og vonaði bara að þetta yrði einhvern tíma búið. Síðustu tveir kílómetrarnir voru ótrúlega langir en það eru þeir væntanlega hjá öllum maraþonhlaupurum. Þegar 500 metrar voru eftir gaf ég í og hljóp eins hratt og ég gat í mark enda var líkaminn alls ekki lúinn.

Mikið var ég fegin þegar þetta var búið!

Niðurstaðan og framtíðin
Það sem eftir var dagsins fór að miklu leyti í að vinna úr þessari reynslu. Ég gat ekki glaðst nógu vel yfir því að hafa hlaupið heilt maraþon og verið góðu líkamlegu standi allan tímann. Ég gat ekki glaðst nægilega yfir því að ég hafði æft vel og verið alveg tilbúin, líkamlega, í þetta hlaup. Mér fannst ég ekki nógu dugleg. Næstu klukkutímar og svo dagar fóru í að sannfæra sjálfa mig um að ég hefði víst verið dugleg, að ég hefði staðið mig vel. Ég er svo lánsöm að eiga hlaupavinkonu sem þekkir mig vel og hefur menntun, reynslu og innsæi til þess að geta hjálpað mér að vinna úr þessu. Niðurstaðan var í stórum dráttum sú að kvíðinn hafi raunverulega byrjað þegar ég veiktist daginn fyrir lengsta hlaupið þremur vikum fyrir maraþon. Þá byrjaði að öllum líkindum kvíðapúkinn minn að fá mig til að efast. Þá fór ég að hugsa of mikið.

Kvöldið eftir maraþonið tók ég ákvörðun; Ég ætla að gera þetta aftur, helst að ári. Ef ég get klárað maraþon í kvíðakasti þá hlýt ég að geta klárað það aftur án kvíða. Nú veit ég hvernig þetta er. Ég veit að ég get þetta auðveldlega en næst ætla ég að hugsa um að hætta að hugsa. Markmiðið verður bara að njóta, ekki að hugsa um tíma, reyna að taka þetta með hæfilegu kæruleysi og vera glöð yfir því að geta hlaupið.