Að fyrirgefa fávitum

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Grafarvogi 18. október 2018

Er hægt að fyrirgefa fávitum?

Er hægt að fyrirgefa ofbeldisfólki, þeim sem nauðga, þeim sem brjóta á börnum með einhverjum hætti? Getum við fyrirgefið morðingjum eða þeim sem stela og eyðileggja? Getum við fyrirgefið þeim sem svíkja okkur og eða hafa okkur fyrir rangri sök?

Eigum við að fyrirgefa þessu fólki?

Hvað með okkur sjálf? Eigum við rétt á að fá fyrirgefningu þegar við sjálf svíkjum, erum vond við fólk eða gerum mistök?

Trú á fyrirgefningunni
Ég hef tröllatrú á fyrirgefningunni og er alveg sannfærð um að hægt sé að lifa lífi þar sem grunnsýnin er sú að okkur verði fyrirgefin mistök og misgjörðir og að við getum á sama hátt fyrirgefið öðru fólki það sem því verður á. En á sama tíma er fyrirgefningin afar flókið fyrirbæri og mér hefur ekki tekist að fyrirgefa öllum og ég veit að það er fólk í þessu samfélagi sem er ósátt við mig og mun jafnvel alltaf vera það vegna þess að ég hef valdið þeim vonbrigðum.

Kristin trú gengur að miklu leyti út á fyrirgefningu. Jesús Kristur er alltaf að boða það að við eigum að fyrirgefa hvert öðru og að við eigum að geta beðist fyrirgefningar. Trúin gerir nefnilega ráð fyrir því að við séum ófullkomnar verur sem gerum mistök og að okkur takist ekki alltaf neitt sérstaklega vel upp. En hann gerir einnig ráð fyrir að við biðjumst fyrirgefningar og að til þess að okkur verði fyrirgefið þá þurfum við að iðrast og viljum bæta fyrir brot okkar eða mistök.

Að fyrirgefa með skynsemi og hjarta
Þetta guðspjall sem við heyrðum í dag snýst einmitt um fyirgefninguna, að við eigum að fyrirgefa náunganum endalaust. Þetta guðspjall er nokkur skýrt. Jóhannes, lærisveinn Jesú, spyr hversu oft hann eigi að fyrirgefa og stingur sjálfur upp á því að svarið sé um það bil sjö sinnum. Jesús svarar honum því til að hann eigi að fyrirgefa mun oftar eða sjötíu sinnum sjö. Endalaust.

En áður en að við göngum út frá því að Jesús eigi virkilega við það að við eigum að fyrirgefa öllum allt þá er gott að skoða í hvaða samhengi þetta samtal á sér stað. Allar sögur í Biblíunni gerast í einhverju samhengi og því er ekki hægt að taka þær allar og heimfæra á okkar samtíma án þess að skoða samhengið. Jesús er með þessu orðalagi, sjötíu sinnum sjö, að vitna til Gamla testamentisns eða í fyrstu mósebók þar sem talað eru um Kain og Abel í tengslum við bróðurmorðið fræga. Þar eru nákvæmlega þessar tölur nefndar en í þveröfugu samhengi þar sem vísað er til hefndar. Samhengið er því það að Jesús er að boða algjörlega nýjan hugsunarhátt sem gengur út á fyrirgefningu og sátt í stað hefndar og ósáttar. Segja má að hann sé að boða fyrirgefninguna sem lífstíl. Hann boðar Guð sem fyrirgefur og sem vill að við gerum slíkt hið sama og sá boðskapur var mörgu samtímafólki Jesú afar framandi.

Þegar Jesús segir við Pétur að hann eigi að fyrirgefa sjötíu sinnum sjö þá á hann að ekki við að hann, eða við, eigum að fyrirgefa öllum allt. Það sem hann á við er að Pétur eigi að nota skynsemina og innsæið. Að ekki sé til einhver óskeikul regla sem segi hvenær við eigum að fyrirgefa og hvenær ekki og hvað þá að við eigum alltaf að fyrirgefa öllum allt. Nei, hann er að segja honum að hann eigi að nota hjartað og skynsemina og meta þetta sjálfur. Sumir hlutir eru nefnilega ekki á okkar valdi að fyrirgefa.

 Misbeiting valds
Vandinn við þennan texta er sá að það er svo auðvelt að misnota hann. Hann hefur verið notaður til þess að kúga fólk til þess að fyrirgefa misgjörðir sem þeim ekki bar að fyrirgefa. Þessi orð hafa verið notuð til þess að kúga fólk til sátta og fyrirgefningar. En fyrirgefning er ekkert sem hægt er að kúga fram.

Það er nefnilega þannig með fyrirgefninguna að eins og hún er góð og mikilvæg þá á hún ekki alltaf við. Suma hluti er einfaldlega ekki hægt að ætlast til að fólk fyrirgefi. Og fólk í áhrifastöðu sem boðar það að fólk sem brotið hefur verið á fyrirgefi þeim sem braut á þeim er einfaldlega að misnota stöðu sína. Það á jafnt við um presta, lögmenn, dómara og hvaða manneskju sem er í áhrifastöðu.

Fyrirgefningin er fyrst og fremst mikilvæg til þess að okkur geti sjálfum liðið betur og til þess að við getum lifað jákvæðara og heilbrigðara lífi enda er líf í fyrirgefningu og sátt heilbrigðara og betra en líf sem einkennist af biturð og reiði. Fyrirgefningin er ekki tæki til þess að komast til himnaríkis eða til þess að fá fólk til þess að vera þægt.

Fyrirgefning snýst að einhverju leyti um tengsl og ef við fyrirgefum annarri manneskju þá hlýtur það að þýða að við getum átt áframhaldandi tengsl við þá eða þann sem við fyrirgefum. Það að fyrirgefa merkir það sama og að strika út misgjörðina, við gleymum henni, við byggjum upp traust á ný og hún mun ekki verða til þess að skugga beri á okkar tensl meir. Þannig virkar fyrirgefning t.a.m. í nánum samböndum.
Þetta er þó eitthvað sem ég tel að sé ekki mögulegt í mjög mörgum tilfellum.

Að sættast við það sem gerðist
Því ætla ég að boða annað fyrirbæri en fyrirgefningu, og það er sátt. Hér á ég sannarlega ekki við að við eigum að sætta fólk þar sem manneskja hefur brotið á annarri heldur á ég við það við getum sæst við orðin hlut og eignast heilbrigðara líf. Við getum sæst við þá staðreynd að einhver hafi brotið á okkur, gert eitthvað á okkar hlut, eða einhvers sem við elskum eða er ekki sama um, og getum komst á þann stað að þessi sem braut af sér skiptir okkur ekki máli lengur. Að þessi manneskja hefur ekki áhrif á það hvernig okkur líður og að tilvist hennar eða návist truflar okkur ekki. Ég kýs að kalla þetta sátt en ekki fyrirgefningu.

Þessi sátt er gríðarlega mikilvæg vegna þess að ef við höldum áfram að leyfa þeim sem á okkur hafa brotið, þeim hafa komið illa fram og hafa auk þess aldrei beðist fyrirgefningar og telja sig jafnvel ekki hafa gert neitt rangt, að hafa áhrif á líf okkar og líðan, þá er stór hætta á því að við verðum bitur. Og ég held að biturleiki sé ein versta líðan sem hægt er að búa við. Að vera alltaf reið og sár út í einhvern og eitthvað (með fullum rétti) gerir okkur bara reið og eitrar samband okkar við annað fólk og okkur sjálf. Fólk þreytist yfirleitt á bitru fólki og reynir jafnvel að forðast það.

Við þurfum ekki að fyrirgefa fávitum
Það er hægt að fyrirgefa fávitum en við þurfum ekki að gera það. Það er hægt að sættast við að fávitarnir hafa gert það sem þeir gerðu og lifa svo góðu lífi án áhrifa frá þeim. Við gerum öll mistök og við getum öll gert eitthvað illt, bæði óvart og með vilja. Okkur er ekki öllum gefið að finna til eftirsjár og iðrunar og við erum ekki öll fær um að biðjast fyrirgefningar. Sumir hlutir eru þess eðlis að engin manneskja getur gert ráð fyrir að þeir séu fyrirgefnir. Suma hluti getur engin/n fyrirgefið nema Guð. Og þegar kemur t.d. að kynferðisbrotamálum þá er aldrei hægt að gera kröfu um fyrirgefningu og það á aldrei að boða til sáttarfunda milli þolanda og geranda. Aftur á móti er hægt að ná sátt við að þessir atburðir hafi gerst og komast á þann stað að gerandinn skipti ekki máli og hafi engin áhrif á líf eða tilfinningar þolandans. Þangað komumst við þó fæst nema með mikilli vinnu og úrvinnslu tilfinninga. Það er þó mikilvægt að stefna að þessari sátt því líf í sátt verður alltaf ríkara en líf í biturð. Og með lífi í sátt komumst við býsna nálægt himnaríki á jörð.
Amen.

Guðspjall: Matt 18.21-35

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“
Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.
Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.
Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“