Að trúa með efa og efast með trú

Ert þú trúgjörn/trúgjarn? Er auðvelt að fá þig til að trúa hinu og þessu eða efast þú um allt þar til þú færð sannanir sem duga þér?

Ég held að ég sé ekkert sérstaklega trúgjörn. Það er ekki svo auðvelt að plata mig. Held ég. En ég er heldur ekki þannig að ég trúi engu. Ég trúi fullt af hlutum sem ég hef ekki sannreynt sjálf. Ég trúi því að maðurinn minn elski mig þrátt fyrir að ég muni aldrei geta fengið fullkomna sönnun á því. Ég hef ákveðnar vísbendingar um það en síðan verð ég að velja hvort ég trúi því eða ekki.

Í dag er ekkert sérstaklega „inn“ að trúa á Guð, í það minnsta í ákveðnum hópum samfélagsins. Þessir hópar hafa sterka rödd og fá gott rými í fjölmiðlum. Stundum er hæðst að þeim sem trúa og einhvern vegin gert ráð fyrir því að trúað fólk hljóti að vera bókstafstrúar. Það er eitthvað sem ég skrifa ekki undir og hef aldrei gert. Auk þess er bókstafstrú afar sjaldséð meðal leiðtoga Þjóðkirkjunnar. En trúleysi getur svo sem verið jafn bókstaflegt og trú og kannski er auðveldara að gagnrýna trú ef fólk gengur út frá því að hún sé bókstafleg.

Mér finnst töff að trúa en mér finnst það ekki alltaf auðvelt. Það er ekki auðvelt vegna þess að ég efast oft líka. Trú er nefnilega ekki bara eitthvað átakalaust og áhættulaust fyrirbæri, einhver þægilegur dvali. Það getur verið barátta að trúa vegna þess að skynsöm manneskja getur varla trúað án þess að efast.

Það krefst ákveðins hugrekkis að trúa með efa og að efast með trú. Það er svo einfalt að vera bara öðru megin og halda sig þar. Því fylgir engin barátta. Ef þú ert einungis efans megin er hættan sú að þú takir allri trú bókstaflega, lítir á trúfólk sem bókstafstrúarfólk sem yfirleitt er ósanngjarnt viðhorf. Ef þú ert einungis trúarinnar megin, án efans, þá er hættan sú að þú glímir aldrei við erfiðu spurningar trúarinnar og teljir trúlaust fólk vaða í villu.

Tómas
Í dag, viku eftir páskahelgina, heyrum við guðspjallið um Tómas efasemdamann. Tómas var einn bestu vina Jesú en hann neitaði að trúa því að Jesús væri upprisinn nema hann fengi að sjá hann og snerta naglaförin og lái honum það engin. Hann hafði ekki verið með þegar hinir lærisveinarnir hittu Jesú upprisinn og dugði honum ekki að heyra vitnisburð þeirra. Hann vildi sjá þetta sjálfur.

Tómas er ein af mínum uppáhaldspersónum í guðspjöllunum. Það er svo auðvelt að setja sig í hans spor, enda eru líkurnar á því að dáin manneskja rísi upp frá dauðum engar! Hann hafði horft á vin sinn deyja og hann var í sorg. Hann var ekki tilbúinn til að trúa hverju sem er.

Mér líkar við Tómas vegna þess að í honum birtist manneskja sem leyfir sér að efast. Hann fylgir ekki bara hinum heldur hlustar á sjálfan sig og spyr spurninga. Hann trúir því ekki að Jesús hafi risið upp.

Tómas þessi, sem fékk viðurnefnið „efasemdamaður“, varð síðar mikill trúboði og var að lokum tekinn af lífi á Indlandi vegna trúar sinnar. Efasemdamaðurinn varð trúmaður. Reyndar var Tómas alltaf trúmaður því hann var einn dyggasti vinur Jesú en vegna þess að hann leyfði sér að efast og spyrja spurninga í þetta eina skipti, festist þetta viðurnefni við hann og hann varð tákn efasemdamanneskjunnar.

Mér þykir trúlegt að þessi kafli um Tómas sé þarna af ákveðinni ástæðu. Ég held að tilgangur hennar geti verið að sýna okkur að Tómas efaðist vegna þess að hann trúði og hann trúði vegna þess að hann efaðist. Trú hans dýpkaði vegna þess að hann leyfði efanum að komast að og leitaði svara sem voru merkingarbær fyrir hann. Trúin dýpkar ekki, þroskast eða þróast nema við leyfum efanum að komast að, setjum hann í orð, gefum honum rými og spyrjum spurninga.

Og Jesús tók mark á efanum. Hann móðgaðist ekki við Tómasi  og sagði honum að hann yrði bara að vera sæll og trúa eins og hinir heldur leyfði hann honum að snerta sárin. Hann tekur mark á efanum.

Það getur verið erfitt fyrir trúmanneskju að opna fyrir efann. Við getum óttast að komast ekki aftur til baka. En trú sem þroskast með efanum getur dýpkað og orðið raunverulegri.

Að trúa með efa og efast með trú
Nú kann þetta að hljóma hálf undarlega fyrir þau sem alls ekki trúa. Hvaða trú er þetta og hvaða efi. Annað hvort trúir þú bara eða ekki gætu einhver hugsað. Jú, þannig getur þetta vissulega verið en ég er þó alveg viss um að trúmanneskja sem aldrei efast hljóti að staðna einhvers staðar í trúarþroskanum og að trúlaus manneskja sem aldrei íhugar æðri mátt og þann möguleika staðni sem sama hætti í trúleysisþroska sínum.

Við þurfum að opna fyrir alla möguleika og þora að velta fyrir okkur öllum spurningunum, jafnvel þó það geti verið erfitt og niðurstaðan geti hrist upp í grundvallarafstöðu okkar. Því er erfitt að trúa með efa. Því er erfitt að vera trúlaus og efast um þá afstöðu. Efinn á við í báðar áttir.

Trú og trúleysi snýst um grundvallarafstöðu okkar til lífsins og hversu skynsöm sem við teljum okkur vera og sama hversu stórt rými efinn fær í okkar lífi þá verða alltaf á vegi okkar fyrirbæri sem við getum ekki annað en trúað ef við eigum að lifa þokkalega hamingjusömu lífi. Við getum t.a.m. aldrei fengið sönnun um ástina, að hún sé. Við getum séð vísbendingar og valið að trúa en við fáum aldrei hreina sönnun á því að við séum elskuð. Við munum aldrei fá jafn áþreifanlega sönnun og Tómas fékk og því snýst þetta um að fá nægilega sterkar vísbendingar sem eru merkngabærar fyrir okkur.

Ég vel að trúa bæði á ástina og Guð því ég hef fundið fyrir báðu. Ég vel að trúa vegna þess að ég vona að til sé eitthvað æðra og merklegra en ég og að þessi heimur okkar og tilvera öll hafi einhverja merkingu og tilgang. Að við séum ekki hér eingöngu fyrir fullkomna tilvilijun.
Því trúi ég með efa og því efast ég með trú.
Amen.