Veislur, vín og mömmur

Veislur
Nú þegar jólahátíðinni er nýlokið er vel við hæfi að ræða aðeins um veislur.

Hefur þú gaman að veislum? Ekki veit ég hvort þér finnist við hæfi að bjóða upp á margar sortir í veislum eins og henni Hnallþóru í bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir jökli og býður gestum aldrei færri en 17 sortir eða hvort þú hafir kannski engan áhuga á veislum. Mögulega ert þú mest fyrir matarveislur, eða skemmtir þér best í brúðkaupsveislum. Kannski viltu frekar vera með fáum og nánum vinun og ert lítið fyrir margmenni. Kannski veistu ekkert skemmtilegra en að halda veislu og bjóða heim eða mögulega veistu ekkert verra en mannamót og kvíðir þeim mjög. Við höfum örugglega mörg hver fengið nóg af veislum og samkomum í bili, eftir jól og áramót enda er hversdagsleikinn iðulega jafn velkominn eftir hátíðarnar og hátíðir eru eftir langdreginn hversdagsleikann.

Við heyrðum áðan um veislu þar sem vínið kláraðist áður en gestirnir höfðu fengið nóg. Þetta var brúðkaupsveisla þar sem Jesús var staddur ásamt móður sinni og mögulega fleiri fjölskyldumeðlimum. Þegar vínið klárast kallar móðir Jesú á hann og biður hann að bjarga málunum.

Okkur kann að þykja það mesti hégómi að það hafi verið vandamál að vínið skuli hafa klárast. Gátu þau ekki bara drukkið vatn eða kók? Nei, það gátu þau nefnilega ekki því gosdrykkir voru ekki til og í þessu samfélagi hefði alls ekki gengið upp að bjóða upp á vatn. Þetta var brúðkaupsveisla og fyrir gestgjafann var það hin mesta smán að eiga ekki nægar veitingar. Það var jafn óhugsandi að eiga ekki nóg rauðvín fyrir gestgjafana og það hefði verið fyrir Hnallþóru að bjóða aðeins upp á 7 sortir. Reyndar hefði þessi vínskortur getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölskyldu brúðgumans (sem hélt veisluna) og jafnvel fyrir brúðarparið sjálft, því það að geta ekki veitt gestum sínum nóg gat þýtt félagslega útskúfun og jafnvel fjárhagslega erfiðleika í framhaldinu. Það var því ekki að undra að gestgjafarnir væru áhyggjufullir vegna vínskortsins og móðir Jesú vildi koma þeim til hjálpar. Ekki er ólíklegt að fjölskylda brúðgumans tengdist henni.

En þegar María biður son sinn um hjálp þá bregst hann frekar fúll við og segir að hans tími sé ekki kominn. Þarna langar mig að staldra við.

Að hlusta á annað fólk
Jesús er ekki tilbúinn en hann gerir samt það sem móðir hans biður hann um og bjargar málunum.

Þetta var náttúrulega móðir hans sem bað hann og kannski átti hann erfitt með að neita henni en þó er ljóst að hann taldi sig ekki vera tilbúinn. Hann lét það þó ekki eftir sér að bíða þar til hann yrði tilbúinn. Hann hlustaði á aðra manneskju og fór að ráðum (eða beiðni) hennar. Þannig er það stundum í okkar lífi að það koma raddir utan frá sem kalla til okkar og ýta á okkur að taka ákvarðanir, að gera eitthvað sem við erum kannski ekki tilbúin til að gera. Og það getur verið gott að hlusta á annað fólk því köllun okkar kemur ekki aðeins að innan, frá okkur sjálfum, heldur getur hún komið utan frá, frá öðru fólki. Kannski kallar Guð okkur þannig, í gegnum annað fólk, jafnvel þegar við upplifum okkur ekki alveg tilbúin. Ég held reyndar að Guð geti kallað okkur til ýmissa verka bæði í gegnum okkar innri rödd og með rödd annars fólks.

Þetta undur, þegar Jesú breytti vatni í vín, var fyrsta undrið eða kraftaverkið sem hann gerði á sínum ferli. Kannski vildi hann ekki gera þetta vegna þess að hann vissi að þegar hann hefði framkvæmt fyrsta kraftaverkið þá yrði ekki aftur snúið. Þá sæi fólk hann ekki lengur sem venjulegan prédikara. Kannski var hann bara óöruggur. Kannski þótti honum þetta ekki nógu merkilegt viðfangsefni. En hver sem ástæðan var þá lét sjálfur Jesús Kristur til leiðast eftir að hafa hlustað á mömmu sína. Kannski ættum við því að vera dugleg að hlusta á annað fólk, hlusta á foreldra okkar, börnin okkar, vini og önnur þau er vilja knýja okkur til að gera eitthvað, til að taka ákvarðanir. Stundum gerast hlutirnir ekki af sjálfu sér heldur þarf annað fólk til þess að ýta á okkur, að við látum verða af því að gera það sem er gott fyrir okkur, taka ákvarðanir og stefnu í lífnu.

 Trúir þú á kraftaverk?
Nú er ekkert víst að þú trúir því að þetta kraftaverk hafi raunverulega gerst því engin manneskja geti breytt vatni í vín. Kannski trúi ég þessu ekki heldur. Kannski trúi ég þessu. Ef ég á að segja eins og er, þá veit ég bara ekki hvort ég trúi þessu eða ekki og mér finnst ekki skipta máli hvort þetta hafi raunverulega gerst. Þessi saga er jafn full af boðskap og táknum fyrir því. Sagan sýnir okkur jafnvel hvernig Guð er þó við eigum erfitt með að trúa því að þetta undur hafi átt sér stað..

Þessi saga segir okkur að Guð lætur sig allt okkar líf varða. Það fyrirbæri sem við köllum Guð, er Guð lífsgleðinnar. Guð vill að við njótum þessa lífs um leið og við vöndum okkur við að vera manneskjur. Guði er ekki sama þegar við höfum áhyggjur af því að eiga ekki nóg handa gestum okkar. Guði er ekki sama þegar við höfum áhyggjur af fjármálum og félagslegri stöðu okkar. Guði er ekki sama um neitt er viðkemur okkur.

Þessi saga segir okkur líka að Guð kallar okkur til góðra verka með ýmsum hætti og oft getur það verið í gegnum annað fólk.

Hlustum því á fólkið okkar, á náungann, á mömmu.

Dýrð sé Guði sem lætur sig allt okkar líf varða. Amen.