Að umgangast óþolandi fólk

Að vera ósammála
Í vikunni sem leið var loks mynduð ríkisstjórn en það tók víst meira en 70 daga fyrir flokkana að koma sér nægilega mikið saman um stefnu mála til þess að hægt væri að mynda stjórn. Nú eru þið kannski hrædd um að ég ætli að fara að tala um stjórnmál og jafnvel hafa skoðun á ríkisstjórninni. En verið óhrædd. Það mun ég ekki gera. Mig langar frekar að tala um hvað við gerum við tilfinningar okkar þegar við erum ósammála fólki. Þegar okkur finnst fólk hafa rangar og ómögulegar skoðanir.

Fólki finnst ýmislegt um þessa nýju ríkisstjórn. Fólki finnst líka ýmislegt um ráðherrana. Ég hef skoðanir á henni þó ekki séu þær mjög skýrar enn því hún var rétt að byrja. Þú hefur kannski skoðanir á henni líka. Undanfarna daga hafa fjölmiðlar verið fullir af fréttum þar sem hinir ýmsu álitsgjafar, oft fyrrverandi þingmenn (yfirleitt karlmenn sem fá mikið rými í fjölmiðlum), segja sína skoðun á stjórn og stjórnarandstöðu. Margir hverjir eru svartsýnir. Flestir jafnvel.

Það er mikið af fólki í samfélaginu sem ég er ósammála, sem hefur ólíkar skoðanir en ég á grundvallaratriðum, fólk sem hefur önnur lífsgildi en ég. Mig langar ekkert að umgangast mikið fólk sem er svo ólíkt mér og hefur skoðanir sem ég get jafnvel ekki borið virðingu fyrir en stundum kemst ég ekki hjá því.

Að umgangast fólk sem okkur líkar ekki við, og erum ósammála inn að okkar innstu hjartarótum, getur verið erfitt. Við reynum kannski að forðast að hafa of mikið af því fólki í okkar innsta hring en við komumst þó aldrei alveg hjá því að umgangast þau eitthvað eða jafnvel að fylgjast með þeim stjórna landinu okkar. Þannig virkar lýðræðið.

Þetta verður kannski erfiðast þegar fólk er með gjörólíkar skoðanir á trúmálum og stjórnmálum því þá snýst þetta um sýn okkar á lífið og manneskjuna, lífsgildin sjálf. Það er alltaf verra þegar við upplifum að traðkað sé á því som okkur er kærast.

Sakkeus
Þið hafið örugglega mörg hver heyrt söguna um Sakkeus áður. Sakkeus var yfirtollheimtumaður og það þýddi að hann var, ríkur, valdamikill og óvinsæll. Hann innheimti skattinn fyrir hið öfluga Rómarveldi og hann mátti leggja eins miklar álögur á fólk, til viðbótar við skattinn, og hann vildi og þannig fá inn sín laun. Þessir skattheimtumenn voru þekktir fyrir að níðast á fólki með því að rukka allt of háan skatt og lifa svo í vellystingum sjálfir.

Jesús stendur svo sannarlega fyrir allt nema svindl og svínarí. Hann stóð með þeim sem voru minni máttar og hvatti ríkt fólk til þess að gefa með sér. Hann umgekkst reyndar oft fólk sem ekki var talið við hæfi að hann ætti samneyti við.

Þegar von er á Jesú í bæinn langar Sakkeusi svo mikið að sjá hann. En Sakkeus var lágvaxinn og varð að grípa til sinna ráða. Hann vissi að hann myndi aldrei sjá Jesú í mannfjöldanum og því klifraði hann upp í tré til þess að fá betra útsýni.

Þegar Jesús sér hann í trénu kallar hann til hans og biður hann að koma niður því hann vilji að hann bjóði sér í mat.

Jesús sér hann og hann kallar á hann.
Han vill borða með honum.
Hann vill fara í heimsókn til hans.

Sakkeus var óvinsæll maður og álitinn óréttlátur og Jesús býður sjálfum sér heim til hans meðvitaður um að hann muni ekki skapa sér vinsældir með því.

Hafður fyrir rangri sök
Þegar Sakkeus skilur að Jesús hafi raunverulega séð hann og vilji eyða tíma með honum og kynnast honum, verður hann snortinn. Hann segir við hann að hann gefi fátækum helming eigna sinna og ef hann hafi eitthvað af fólki þá borgi hann það fjórfalt til baka.

Þessi orð eru gjarnan túlkuð þannig að Sakkeus hafi verið argasti svindlari þar til Jesús sá hann en þó er ekkert í sögunni sem segir að hann hafi breytt hegðun sinni á þessum tímapunkti. Það getur allt eins verið að hann hafi alltaf gefið fátækum helming eigna sinna en að engin(n) hafi vitað af því fyrr en þarna. Að hann hafi verið hafður fyrir rangri sök.

Orðin í textanum eru í nútíð en ekki framtíð þegar hann segir:

helming eigna minna gef ég fátækum…

Kannski kom þarna í ljós að þær hugmyndir sem fólk hafði um Sakkeus hafi ekki átt við rök að styðjast heldur hafi verið byggðar á fordómum. Fólk átti að líta niður á fólk eins og Sakkeus. Það var “inn”.

Réttu skoðanirnar
Ég er nokkuð viss um að mörg okkar finna fyrir pressu í þá áttina að okkur eigi ekki að líka við ákveðið fólk eða ákveðna hópa. Þetta geta t.d. verið stjórnmálaflokkar eða trúarhópar. Þannig er það sjálfsagt röng skoðun í ákveðnum hópum að vera jákvæð gagnvart Þjóðkirkjunni á meðan í öðrum hópum á fólk að vera á móti Sjálfstæðisflokknum eða Pírötum. Það verða alltaf til hópar og fólk sem er skoðanamyndandi og ef þú ætlar að vera með þá verður þú að hafa réttu skoðanirnar, á öllu. Þetta er skiljanleg hegðun að mörgu leyti því það fyllir okkur öryggistilfinningu að finna að við eigum skoðanasystkini, að við erum ekki ein. Þetta er þó vont og jafnvel hættulegt þegar við finnum að á okkur er pressa í átt að ákveðnum skoðunum sem við erum kannski alls ekki sammála.

Hættan við þetta er meðal annars fólgin í því að við förum að sjá heiminn, fólk, trúarbrögð og stjórnmál í svörtu eða hvítu. Að annaðhvort ertu með eða á móti. Þú getur aldrei verið óviss, opin(n) eða mitt á milli. Þér getur ekki líkað við sumt en ekki allt. Annað hvort ertu með eða á móti.

Það er ekki ólíklegt að einhvern vegin í þessa hátt hafi stemmingin í kringum Sakkeus verið. Almenningsálitið var á móti honum. Hann átti ekki upp á pallborðið því hann var í vitlausu liði.

Þegar Jesús sýnir honum velvild og hlustar á hann kemur í ljós að hann var ekki eins og fólk taldi hann vera. Hann var bara venjulegur maður í ömurlegri vinnu og gaf meira til samfélagsins en stór hluti fólksins sem taldi sig vita best.

Þessa vitneskju fær Jesús fram með því að sýna honum hlýju og virðingu.

Hver er sakkeus í þínu lífi? Þeir eru nokkrir í mínu lífi því ég er ekkert betri en fólkið þarna í kringum Sakkeus þótt ég vilji gjarnan vera betri. Ég rekst alltaf annað slagið á sakkeusa, horfi í gegnum þá og vil ekkert með þá hafa.

Ef ég gæfi mér tíma til að sýna þeim hlýju og virðingu myndi ég mögulega komast að því að það er meira spunnið í sakkeusana en ég hélt.

Kannski er ríkistjórnin sakkeus í þínu lífi eða mínu. Kannski er sakkeus stjórnarandstaðan. Kannski er hann einstaka stjórnmálaflokkur eða trúarhreyfing. Mögulega er sakkeus einhver manneskja sem þú átt erfitt með að bera virðingu fyrir.

Jesús gaf sér tíma til þess að sýna Sakkeusi að hann var elskaður. Hann sýndi Sakkeusi og okkur að við þurfum ekki að tilheyra “rétta” hópnum í okkar samfélagi eða okkar umhverfi til þess að verða elskuð af Guði.

Þetta þýðir þó ekki að við eigum að láta okkur líka við allt fólk, elska það og virða hvað sem það gerir á okkar hlut og þrátt fyrir að það hafi meiðandi skoðanir. Það er ekki mögulegt og Guð gerir enga þess háttar kröfu.

En Jesús sýndi okkur þarna að það er meira spunnið í okkur öll en virðist við fyrstu sýn, að heimurinn er ekki svartur eða hvítur. Heimurinn er í öllum regnbogans litum og því ættum við að taka Jesús okkur til fyrirmynar þarna og vera opin fyrir sakkeusunum og virða þau sem hugsa ekki endilega eins og við sjálf þó oft sé það erfitt.
Amen.