Hin raddlausu


Fæðing á Landspítalanum
Um jólahátíðina fyrir nokkrum árum fékk ég þann mikla heiður að vera viðstödd fæðingu frænda míns. Ég hafði sjálf gengið í gegnum fæðingar og taldi mig því vel undirbúna til þess að vera til staðar fyrir móðurina. Svo þegar kom að fæðingunni var þetta ekki alveg eins og ég hafði búist við. Ég taldi að þar sem ég hafði sjálf fætt börn þá færi ég létt með að styðja aðra konu gegnum fæðingu. En þetta var býsna erfitt og um leið eitt það fallegasta og merkilegasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Það erfiða var að ég gat svo lítið gert. Ég gat ekki tekið sársaukann frá móðurinni eða hjálpað henni við vinnuna. Vinnan var öll hennar og ég gat aðeins kvatt hana til dáða. En stundin, þegar ég horfði á barnið koma í heiminn, var töfrum fyllt. Að sjá manneskju líta dagsins ljós í fyrsta sinn, svo varnarlausa og viðkvæma getur ekki verið neitt minna en kraftaverk. Og þar sem ég stóð og horfði á ljósmóðurina taka á móti barninu og lyfta því upp varð ég eitt augnablik logandi hrædd um að það væri ekki allt í lagi með barnið. Léttirinn var því mikill þegar þegar drengurinn byrjaði að gráta og var lagður í fang móður sinnar.

Þetta var ekkert minna en kraftaverk.

Og það var nákvæmlega svona sem Guð valdi að koma í heiminn til þess að birta okkur vilja sinn, verund og hjálpa okkur að gera veröldina okkar betri.

Fæðing í Betlehem
Reyndar voru aðstæðurnar í Betlehem töluvert verri því sú fæðing átti sér ekki stað á góðum spítala með færum ljósmæðrum og læknum handan við hornið. Jósef hefur því að öllum líkindum þurft að gegna mörgum hlutverkum þessa nótt og taka á móti barninu sjálfur. Ég get ímyndað mér ótta hans og síðan létti þegar barnið grét.

Þau voru bara tvö ein í útihúsi, unga parið sem hafði aldrei reynt neitt þessu líku áður. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið kósý þó við höfum verið dugleg við að skapa þannig myndir af þessum viðburði.

Þegar Guð kom í heim okkar mannfólksins var það við hversdagslegar og venjulegar aðstæður sem við flest þekkjum okkur í að einhverju leyti. Kona að fæða barn, ungir foreldrar á hrakhólum eru aðstæður sem stór hluti heimsbyggðarinnar þekkir.

Utangarðsmenn
Þegar að því kom að flytja fólki fréttirnar af fæðingu frelsarans þá voru það utangarðsmenn samfélagsins sem fyrst af öllum var treyst fyrir fréttunum. Fjárhirðar voru utangarðsmenn því þeir voru álitnir óhreinir og voru því ekki hluti af siðuðu samfélagi. Þeir gátu ekki mætt í musterið né sinnt hreinsunarathöfnum og því urðu þeir útundan. Þeir voru kannski ekki fyrirlitnir á sama hátt og tollheimtumenn og vændiskonur en þeir voru meðhöndlaðir sem loft. Þeir skiptu engu máli. Vitnisburður þeirra var ekki einu sinni marktækur fyrir dómstólum. Svo ómerkilegir voru þeir.

Þau sem ekki höfðu marktæka rödd í samfélaginu fengu góðu fréttirnar fyrstir af öllum.

Hvers vegna velur Guð að birta mikilvægust fréttirnar fyrst allra þeim sem engin manneskja tekur mark á? Vildi Guð ekki að þetta fréttist? Hefði ekki verið árangursríkara ef valdamanneskja í samfélaginu fengi fréttirnar, eða einhver vinsæll sem hefði getað komið boðskapnum áleiðis?

Ef þú vilt koma einhverju á framfæri sem skiptir máli og á erindi til alls heimsins, hvernig ferðu þá að? Þú kemur því væntanlega til fjölmiðla, eða skrifar nógu krassandi um það á facebook (því þá kemst það í fréttir). Þú tilkynnir það ekki þeim sem enga rödd hafa. Þeim sem engin/n tekur mark á.

Hirðarnir, sem fyrstir fengu fréttirnar, voru svo miklir utangarðsmenn í sínu samfélagi, að þeir höfðu löngu hætt að vonast eftir því að fá aðgang að samfélaginu á ný. Hirðarnir höfðu fyrir löngu gefið upp alla von og alla trú. Og það er til þeirra sem engillinn kemur með fréttirnar.

Það eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því að þeim sem ekkert vald hafa, þeim sem standa utanvið er treyst best. Guð er alltaf að hrista upp í okkar fyrirfram gefnu hugmyndum um almættið.

Ég held að ein af ástæðunum fyrir þessu sé sú að í augum Guðs erum við öll jöfn og að Guð hættir aldrei að trúa á okkur, jafnvel þegar við sjálf höfum misst vonina fyrir löngu. Guð heldur alltaf í vonina um að okkur farnist vel að lokum. Guð vonar fyrir okkur.

Þessi saga um fæðingu frelsarans er kannski ekki sagnfræðilega nákvæm að öllu leyti. Við vitum að Jesús fæddist en það er sjálfsagt búið að bæta nokkrum atriðum við fæðingasöguna til þess að fylla þennan hversdagsleika töfrum, eins og gjarnan var gert þegar um fæðingarsögu mikilvægs fólks var að ræða. Því er þessi saga ekki síður táknræn og ég trúi því að Jesús sé alltaf að fæðast á meðal okkar. Að Guð birti okkur vilja sinn með ólíklegasta og jafnvel ótrúlegasta hætti.

Þessi saga, um fæðingu frelsarans, er sagan um okkur, sagan um samband hins guðlega við okkur. Þetta er sagan um þig og mig því við öll munum einhvern tíma vera í þeim sporum að við þörfnumst þess að Guð trúi á okkur. Að við þurfum á Guði að halda sem birtist fyrst þeim sem hafa misst alla von, þeim sem standa utan við samfélagið, þeim sem ekki hafa nein sambönd. Guði sem birtist einmitt þar sem hlutirnir eru alls ekki í lagi, þar sem þörfin fyrir Guð er ekki aðeins mikil, heldur lífsnauðsynleg. Kannski erum við móttækilegust fyrir góðu fréttunum þegar við erum stödd á þeim stað.

Þegar Jesús fæðist okkur, þegar Guð kemur inn í líf okkar þá gerist það ekki með látum og það fer ekki á forsíður fjölmiðla. Það gerist í hinu hljóða, hversdaglega og smáa, í fjárhúsi og meðal hirða. Því er ekki víst að við áttum okkur á því sem hefur gerst, hvaðan góðu verkin komu.

Nú í desember hefur Jesúbarnið fæðst mörgum hér í kringum okkur, sem virkilega hafa þurft á því að halda. Í hverjum desember mánuði er eins og hjörtu okkar opnist upp á gátt og við verðum örlátari en ella. Þannig hafa söfnuðir landsins, hjálparstofnanir, góðgerðafélög og einstaklingar komið þeim til hjálpar sem hafa úr litlu að spila fyrir þessi jól. Þessi hjálp kemur fyrst og fremst frá nafnlausu fólki sem vill gefa með sér og treystir m.a. kirkjunni sinni m.a. til þess að koma þessu til þeirra sem eru hjálparþurfi því þau eru mörg hver í sambandi við kirkjuna. Og mig langar til að þið vitið að það er mikið af einstaklingum sem vilja gefa með sér og það eru ekki aðeins þau sem eiga mikið. Það eru einnig þau sem ekki eiga mikið og oft er það fólk sem sjálft hefur þegið aðstoð einhvern tíma og vill gefa til baka og hjálpa öðrum. Þessi hjálp hefur auðveldað fjölda fólks að halda gleðileg jól og gleðja börnin sín en eins og við höfum heyrt í fréttum undanfarið þá búa of mörg börn á Íslandi við fátækt. Það býr of mikið af fólki á Íslandi við fátækt og hún verður sárari um jólin. Það er skömm okkar og á ábyrgð okkar allra að breyta því. Markmið okkar sem samfélags hlýtur alltaf að vera að allt fólk sem hér býr geti haldið heilög jól án þess að treysta á góðsemi annarra. Það eru lágmarksmannréttindi. Það eru mannréttindi hvers barns að búa við mannsæmandi kjör því engin manneskja kýs fátækt.

Töfrar
Þrátt fyrir að aðstæðurnar við fæðingu Jesú frá Nasaret hafi ekki verið merkilegar og jafnvel töluvert erfiðar og viðkvæmar og töfrunum hafi verið bætt við eftir á, þá voru þær samt töfrum fylltar. Þær voru töfrandi vegna þess að þarna átti sér stað kraftaverk. Ný manneskja kom lifandi í heiminn. Þannig er hver einasta fæðing í þennan heim töfrum fyllt kraftaverk og hverju barni fylgir ný von. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá litla frænda minn líta dagsins ljós í fyrsta sinn, lítinn og varnarlausan og ég fann svo sterkt hversu mjög hann þarfnaðist ástar og umhyggju til þess að lifa af. Þessi stund var töfrum fyllt og ég minnist hennar með hlýju og virðingu.

Þannig kemur Jesús inn í okkar heim, sem kraftaverk inn í okkar erfiðustu aðstæður, með von þangað sem vonleysi ríkir. Búum því til jötu í hjörtum okkar fyrir Jesúbarnið og hleypum því inn á þessari jólanótt.
Amen.

Prédikun flutt í aftansöng í Grafarvogskirkju á aðfangadag kl. 18