Óttinn elskar leyndarmál

Mikið væri ég þakklát ef við, svona um hásumar, fengjum eitthvað þægilegt og huggulegt guðspjall að vinna með. T.d. eitthvað um að elska náungann og Guð og um að við megum vera áhyggjulaus því þetta fari allt vel að lokum eða kannski bara eitthvað um að Guði elski okkur. Þetta er allt í guðspjöllunum og mér finnst ég ekkert vera að biðja um of mikið…

En nei, ég fæ þetta víst ekki uppfyllt þar sem ég á að leggja út frá einum furðulegasta guðspjallstexta kirkjuársins í dag. Um hásumar. Þið trúið því ekki hvað ég var nálægt því að velja bara eitthvað fallegt fyrir daginn í dag! En, ég ákvað þó að gera það ekki heldur halda mig við þetta erfiða guðspjall. Það er mikil áskorun fólgin í því og ég á erfitt með að taka ekki áskorunum. Og kannski er bara betra að heyra þetta guðspjall í björtu.

Sagan
Sagan er svona:
Ríkur maður hafði ráðsmann. Hann frétti að ráðsmaðurinn væri að sóa eigum hans. Hann kallaði ráðsmanninn fyrir sig, bað hann að útskýra mál sitt og tilkynnir honum að hann sé rekinn.

Ekki kemur fram hvað ráðsmaðurinn sagði en ljóst er að hann átti sér engar málsbætur því hann fer strax að sjá fyrir sér afleiðingar breytni sinnar. Hann veit að hann mun missa bæði vinnuna og orðsporið. Hann veit að engin manneskja muni vilja ráða hann í gott starf eftir þetta. Hann veit líka að hann er enginn maður í erfiðisvinnu enda hefur hann hingað til verið í þægilegri „innivinnu” og ekki getur hann hugsað sér að betla.

Og hvað gerir þessi ráðsmaður sem ekki hafði staðið vel hingað til? Jú, hann gerir það sem hann gerir best og heldur áfram að sóa eigum ríka mannsins, og nú til þess að koma sér vel. Það gerir hann með því að kalla til sín alla skuldunauta ríka mannsins og lækka skuld þeirra allra með einu “pennastriki”.

Og nú fyrst fer sagan að verða áhugaverð því ríki maðurinn hrósar svikula ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Hann ræður hann þó ekki aftur í vinnu.

Og nú kemur það allra áhugaverðasta því Jesús segir að við eigum að nýta okkur hinn rangláta mammon til þess að eignast vini sem síðar munu taka við okkur þegar auðurinn er uppurinn.

Jesús hvetur okkur til þess að nota peninga og veraldlega hluti til þess að eignast vini því vinirnir munu standa með okkur seinna meir þegar þegar peningurinn er búinn. Svona eins og ráðsmaðurinn sem nýtti sér stöðu sína til þess að gefa fólkinu upp skuld sína við ríka manninn og eignaðist þannig velvildarfólk þar.

Ekki í anda Jesú
Nú getur við komið með allskyns hugmyndir í kringum söguna til þess að boðskapurinn verði í áttina að því sem við vitum að kristindómurinn gengur út á. Þ.e. að elska Guð, náungann og okkur sjálf. Já, og að við eigum að vera heiðarleg. Kannski var ríki maðurinn t.d. vondur og hafði haft pening af fólkinu og því var ráðsmaðurinn í raun sá góði í sögunni. Ekki getur verið að Jesús sé að hvetja okkur til þess að kaupa okkur vini og að það sé allt í fína að svindla á fólki þegar brýna nauðsyn ber til? Er það ekki of ótrúlegt?

Guðfræðingar hafa glímt við þessa sögu í gegnum tíðina svo ég er sannarlega ekki sú fyrsta. Sumir hafa reynt að fylla í eyðurnar og koma með getgátur um hvað vanti í söguna til þess að skilja hana betur. Sumir hafa reynt að sveigja hana og beygja til þess að láta hana passa við annan boðskap Jesú. Og svo eru þau sem hafa bara látið hana standa, reynt að skilja hana og stundum jafnvel gefist upp.

Mig langar mjög mikið a sveigja söguna aðeins til og bæta við því sem mér finnst vanta. Og trúið mér, ég eyddi góðum hluta vikunnar í einmitt það. En svo gafst ég upp og ákvað að hætta að rembast við að gera söguna að einhverju sem mér finnst fallegt og leyfa henni bara að vera svona eins og hún er og sjá hvað gerist.

Róttækur Jesús
Jesús er þekktur fyrir að vera með mjög róttækan og oft öðruvísi boðskap en fólk vænti. Og þegar við teljum okkur vita nákvæmlega hvað hann vill segja okkur þá segir hann eitthvað allt annað.

Getur verið að Jesús sé hér einfaldlega að sýna okkur hér hversu ríkt það er í manneskunni að vilja bjarga eigin skinni, hversu eigingjörn og sjálfhverf við eigum til að vera? Getur verið að hann sé að sýna þessari hlið okkar skilning því hann veit að hún mun ekki breytast nema að litlu leyti og aðeins með því að vera stöðugt að vanda okkur? Er kannski allt í lagi að við séum stundum eigingjörn og jafnvel svikul svo lengi sem það gagnast öðrum um leið, svona eins og það gagnaðist fólkinu sem fékk skuldir sínar lækkaðar?

Jesús veit að stundum er eins og við ráðum ekki við okkur og við framkvæmum vonda hluti, jafnt meðvitað sem ómeðvitað. Hann veit hvernig það er að vera manneskja sem oft stjórnast af ótta.

Óttinn elskar leyndarmál
Ráðsmaðurinn í sögunni leyfði óttann ná tökum á sér og reyndi hvað hann gat að bjarga eigin skinni. Það tókst ágætlega og hann gerði mörgum gott í leiðinni en þó ekki öllum, ekki ríka manninum. Hann gerði sjálfum sér heldur engan greiða með því að hafa verið svikull frá byrjum. enda missti hann starfið. En þessi ótti sem hann stjórnaðist af er einmitt það sem liggur að baki svo margra vondra verka og ömurlegra hugmynda.

Síðastliðinn föstudag voru fimm ár liðin frá fjöldamorðunum hræðilegu í Útey í Noregi en sá sem framdi þau stjórnaðist augljóslega af ótta. Hann lét stjórnast af ótta við þau sem eru öðruvísi en hann og ótta við að heimurinn gæti orðið öðruvísi en hann vildi. Allt bendir líka til þess að maðurinn sem skaut fólkið verslunnarmiðstöðinni í Munchen á föstudaginn hafi verið innblásinn af verkum Breivíks. Hryðjuverkin sem hafa verið framin að undanföru í Evrópu, og Isis hefur tekið á sig, voru framin vegna ótta og orsök stríða og átaka yfirleitt á milli fólks og menningarheima stýrast að miklu leyti af ótta.

Síðan eru eðlilegustu viðbrögðin við öllum þessum hryllingi einmitt ótti. Því er svo mikilvægt að við reynum af öllum mætti að láta ekki óttann ná tökum á okkur. Norðmönnum tókst það nokkuð vel eftir ódæðisverkin í Útey þegar stjórnvöld tóku meðvitaða ákvörðun um að bregðast við með meira gagnsæi, meira lýðræði og meiri mannúð. Sömuleiðis ákváðu Parísarbúar að láta ekki hræða sig og vonandi verða það einnig viðbrögð íbúa Brussel og Munchen eftir árásirnar þar. Það er líka alveg ljóst að það var, og er, ótti sem liggur að baki ástandinu í Tyrklandi núna og við skulum öll biðja fyrir því að það fari vel og að gagnsæi, mannúð og lýðræði verði óttanum yfirsterkara þar og annar staðar í heiminum.

Nú er útlendingaótti, kynþáttafordómar og rasismi á hraðri uppleið í öllum hinum vestræna heimi og er velgengni Trump, sem forsetaframbjóðanda demókrata í Bandaríkjunum, gott dæmi um það. Á sama tíma og fjöldi fólks er ekki lengur öruggur í sínu heimalandi loka löndin í kring um okkur landamærunum hvert á fætur öðru af ótta við hið ókunna, það sem er öðruvísi og kannski einnig af ótta við að missa eitthvað af sinni köku til þeirra sem ekki eiga tilkall til hennar.

Óttinn er það sem stýrir stórum hluta okkar verstu verka, bæði í okkar persónulega lífi og í stærra samhengi. Óttinn er orsök fordóma gagnvart þeim sem eru öðruvísi en við, hinu óþekkta. Óttinn fær okkur til að byggja múra og einangra okkur. Óttinn fær okkur til þess að vilja stjórna öllu sjálf og hætta að treysta öðrum. Þannig er óttinn einnig gott stjórntæki og oft notaður til þess að ná völdum. Hitler og fleiri einræðisherrar hafa þannig alið á ótta í kringum sig og nýtt sér hræðslu fólksins til þess að ná völdum.

Á meðan óttinn elskar leyndarmálum er óttaleysið gegnsætt.

Þegar óttaleysið fær að ráða þá gerast fallegir hlutir. Druslugangan sem gengin var í gær er dæmi um viðburð sem snýst um óttaleysi. Gleðigangan, sem er orðin að stórri fjölskylduhátíð á Íslandi og er stór á mörgum stöðum í heiminum er líka dæmi um viðburð sem skorar óttann á hólm. Opinská umræða um heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi og allt ofbeldi er hluti af óttaleysi á meðan öll leynd í kringum þessi mál stýrist af ótta.

Við erum eins og við erum
Við hvað ert þú hrædd(ur)? Fær óttinn þig til þess að breyta verr en þú myndir vilja? Átt þú stundum erfitt að ráða við hræðsluna við það sem er öðruvísi, það sem þú þekkir ekki?

Við komumst aldrei frá óttanum því hann er eðlileg viðbrögð við því sem er óþekkt. Það er eðlilegt að vera stundum hrædd(ur). En ef við erum meðvituð um óttann þá er auðveldara að láta hann ekki stjórna hugsunum okkar og verkum.

Ég held að það sé ekki allt í lagi að vera eigingjörn og jafnvel svikul eintaka sinnum svo lengi sem við gerum öðrum gott með því í leiðinni. En ég er þó alveg sannfærð að öll verðum við þannig einhvern tíma og þá er boðskapurinn í dag sá að Jesús dæmir okkur ekki fyrir það. Jesús veit að stundum verðum við þannig og skilur það, en það þýðir þó ekki að við eigum ekki alltaf að reyna okkar besta.

Við þurfum stundum að breyta kænlega til þess að lifa af og Jesús veit það. Í dag fáum við viðurkenningu á því að við erum bara eins og við erum, breiskar manneskjur að reyna að gera okkar besta. Og við erum hvött til þess að láta gott af okkur leiða þó við séum ekki alltaf fullkomin, þrátt fyrir að okkur takist ekki alltaf jafn vel upp. Og ein af leiðunum til þess er að láta óttann ekki ná tökum á okkur.
Amen.