Hrópandi hrædd í rússíbana

Skelfing
Hefur þú einhverntíma orðið svo hrædd(ur) að þú hafir hrópað á Guð af öllum kröftum og beðið um hjálp? Ég hef lent í því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég hef orðið hrædd, kvíðin, sorgmædd áhyggjufull og svo hef ég líka oft þráð svo innilega að eitthvað ákveðið gerðist að ég hef hrópað á Guð. Reynar hef ég yfirleitt bara hrópað innra með mér því ég er jú Íslendingur og við erum lítið fyrir að tjá tilfinningar okkar með miklum látum hér í okkar menningarheimi.

Síðast þegar ég hrópaði mjög hátt á Guð (innra með mér) var þegar ég fór í skelfilegan rússíbana fyrir stuttu og ég taldi nokkuð víst að ég myndi deyja í þeirri ferð. Skynsemin sagði mér að það væri kannski ekki líklegt að eitthvað kæmi fyrir rússíbanann (þó það gæti vel gerst) en ég hefði getað dáið úr hræðslu eða fengið hjartaáfall við þessa skelfilegu reynslu. Kannski finnst einhverjum hér þetta ekki merkilegt dæmi því
ykkur þykir rússíbanaeynsla skemmtileg en trúið mér, ég var skelfingu lostin í alvörunni. En ég hef líka lent í því að verða alvarlega hrædd um fólkið mitt, haft áhyggjur af börnunum mínum, fjölskyldumeðlimum og vinum á þann hátt að ég hafi þurft að hrópa á Guð. Mér þykir líklegt að þú hafir upplifað það líka. Og kannski líður þér einmitt þannig nú vegna einhverra aðstæðna í þínu lífi.

Ég hef ekki lent í sjávarháska en ég get rétt ímyndað mér þá skelfingu að vera hrædd um að skiptið sé að farast. En ég kannast nokkuð við flughræðslu og hún er ekkert grín.

Hann svaf
Við heyrðum í dag sögu um skelfingu, um hróp óttasleginna manna á hjálp. Jesús fer með vinum sínum á sjóinn. Þetta eru naglar, vanir sjómenn sem kalla ekki allt ömmu sína og eru fagmenn á sínu sviði. Jesús er rólegur, lætur þá um sitt og steinsofnar í bátnum. Ekki kemur fram hvernig veðrið var þegar þeir lögðu frá landi en fljótlega versnar veðrið svo mikið að öldurnar ganga yfir bátinn. Ég get ímyndað mér að þessi menn hafi verið ýmsu vanir en að lokum er veðrið orðið þannig að þessir þaulreyndu sjómenn voru orðnir skíthræddir. Þeir voru svo hræddir að þeir hrópuðu á Jesú og báðu hann um hjálp. “Bjarga okkur, við förumst” hrópuðu þeir. Jesús vaknar við hrópin í þeim en viðbrögð hans eru svolítið sérstök. Hann gerir lítið úr ótta þeirra og kallar þá trúlitla um leið og hann hastar á vindinn og úr verður stillilogn.

Það er hægt að lesa og túlka biblíusögur sem þessa á nokkra vegu. Það er m.a. hægt að skoða hana bókstaflega. Þ.e. líta svo á að þetta hafi gerst einmitt með þeim hætti sem lýst er í sögunni og að þarna hafi kraftaverk átt sér stað. Það er hægt að skoða hana hálfbókstaflega. Það er að þetta hafi gerst einhvern veginn á þennan hátt, að Jesús hafi farið með vinum sínum í bátinn og eitthvað stórkostlegt hafi gerts. Svo er hægt að túlka söguna á táknrænan hátt þannig að hú segi okkur eitthvað um líf okkar á öllum tímum.

Á þessum sjómannadegi langar mig að skoða hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur í dag að Jesús (sem er birtingarmynd Guðs á jörðu) svaf í óveðrinu á meðan vinir hans voru hræddir um líf sitt. Og mig langar líka að við veltum fyrir okkur hvers vegna Jesús brást svo leiðinlega við þegar hann var vakinn.

Játning
Er Guð sofandi í lífi okkar?
Er Guð afskiptalaus um líf okkar og afdrif?
Getur verið að Guð heyri ekki í okkur nema þegar við hrópum?
Eða erum við fagfólkið í eigin lífi sem Guð hefur ekki áhyggjur af og þarf ekki að skipta sér af hverju skrefi sem við tökum, af lífi okkar frá degi til dags?

Þegar Jesús loksins vaknaði þá brást hann ekki við eins og við ættum að geta búist við af Jesú Kristi, birtingarmynd Guðs á jörðu. Hann stökk ekki upp og hrópaði: “Hvað er að gerast? Hvað get ég gert? Á ég að bjarga ykkur?” Svona svolítið eins og ofurhetja. Nei, hann sagði þeir ættu ekki að vera hræddir heldur hafa meiri trú.

Nú ætla ég að játa svolítið fyrir ykkur:
Ég er trúuð (það er ekki játningin). Ég hef helgað líf mitt þjónustunni við Guð og fólk og nú sérstaklega Grafarvogssöfnuði. En þrátt fyrir það er ég ekki með guðsorð á vörum allar stundir. Ég er ekki stöðugt að vitna í Biblíuna og bjóða öllum að biðja með mér sem ég mæti. Og vitið þið hvað? Ég gleymi stundum að fara með bænirnar mínar á kvöldin! Og ég er meira að segja hætt að fá samviskubit yfir því.

Samband Guðs og manneskjunnar getur verið á margan máta. Ég tel að þessi frásögn um Jesú og sjómennina geti skýrt fyrir okkur hvernig samband við getum átt við Guð, þ.e. eina tegund af sambandi manneskjunnar við Guð. Þarna kemur Guð fram, í Jesú Kristi, sem einhvað/einhver sem treystir okkur fyrir okkar daglega lífi. Það að Jesús sefur getur merkt það að Guð er ekki með dagleg inngrip í líf okkar og atburðarrás vegna þess að við erum myndugar manneskjur sem stjórnum eigin lífi. Við erum ekki viljalaus verkfæri í höndum Guðs heldur höfum við frjálsan vilja. Guð treystir okkur.

En Jesús er með í bátnum. Hann er ekki sofandi heima hjá sér heldur er hann með í óveðrinu. Hann er þarna þó hann sé ekki að skipta sér af okkur allar stundir og þannig er Guð með í okkar lífi hvernig sem allt æxlast.

En síðan bregst hann þannig við þegar hann er vakinn af óttaslegnu fólki að hann er hissa á því að þeir séu hræddir og séu að hafa fyrir því að vekja sig. Getur verið að hann vilji segja okkur með þessu að Guð sé sé ávallt með okkur, hvort sem við hrópum á hann eða ekki? Að hvort sem við munum eftir að biðja, hrópa á Guð þá er Guð með okkur og heyrir hróp okkar? Að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að Guð heyri ekki?

Allt hefur sinn tíma
Mér finnst það góð tilhugsun að Guð sé með okkur hvort sem við séum með guðsorð á vörum allar stundir eða ekki og þrátt fyrir að við gleymum stundum að biðja bænirnar okkar. En þýðir það þá ekki að við þurfum ekki að gera neitt? Þýðir þetta að Guð sjái bara um þetta hvort sem við biðjum eða ekki og hvernig sem við erum?

Já, að nokkru leyti þýðir þetta einmitt það, að Guð er til staðar fyrir okkur, líka þegar við gleymum Guði. Þegar við gleymum að biðja biður Guð fyrir okkur og þegar við fáum efasemdir trúir Guð fyrir okkur.

Það er þó ein krafa sem Guð gerir og við fáum enga undanþágu frá og megum aldrei gleyma. Það er krafan um að reynast náunganum vel. Jesús segir: “Allt sem þér gerið einum minna minnsta bræðra það hafið þið gert mér” (Matt 25:40). Framkoma okkar við náungann hefur áhrif og þar er krafan um að vera góðar manneskjur og sýna kærleika í verki, alveg skýr. Guð er nefnilega ekki aðeins eitthvað hátt upphafið fyrirbæri sem birtist okkur með þrumuraust. Nei, Guð birtist okkur einnig, og kannski fyrst og fremst, í hinu lága og einfalda, í andardrætti lífsins, náttúrunni, mitt á meðal okkar, í öllum sem við mætum. Í náunga okkar.

Allt hefur sinn tíma
Stundum þurfum við að hrópa vegna þess að við erum hrædd. Guð heyrir hrópin.
Stundum þurfum við að þakka því allt hefur farið á besta veg. Guð heyrir þakkirnar.
Stundum gleymum við að biðja. Þá biður Guð fyrir okkur.
En við þurfum alltaf að koma vel fram við náungann og alla sköpun Guðs, sýna henni elsku, kærleika og umburðarlyndi. Þannig lofum við Guð fyrir allt sem okkur er gefið án fyrirhafnar.
Amen.