Tölum um Guð

Unanfarin ár hef ég verið að skoða hversu mikið söfnuðurinn heyrir af því sem prédikarinn vill koma á framfæri. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu ólíkar og fjölbreyttar guðsmyndir fólksins, sem sækir guðsþjónustur, eru. Það sem einnig hefur komið í ljós, og kemur reyndar ekki á óvart, er að því skýrari sem guðsmynd prédikarans er og því sterkari sem rauði þráðurinn í prédikuninni er, þeim mun líklegra er að fólk heyri það sem prédikarinn vill segja. Þessar rannsóknir eru hluti af frammhaldsnámi mínu í prédikunarfræðum.

Eitt aðal verkefni prédikarans, fyrir utan að lesa guðfræði og vera virk(ur) í samfélagi fólks, er að skoða og þróa sína guðsmynd og íhuga og prófa sig áfram í hvaða hugtök lýsa þeirri mynd eða myndum best.

Hlutverk prédikarans í dag er í mínum huga að heimfæra Biblíutexta og þannig hjálpa fólki að halda áfram að móta sína eigin trú og guðfræði og með því dýpka samband sitt við Guð. Hlutverk prédikarans getur aldrei verið að útskýra fyrir fólki hver eða hvað Guð er því myndir okkar eru ólíkar og ekkert sem styður að mynd prédikarans sé “réttari” en myndir þeirra er hlýða á prédikunina. Það getur jafnvel verið svo að guðsmyndirnar í kirkjunni séu jafn margar og ólíkar og fólkið sem þar er.

Eru þá allar guðsmyndir jafn réttar?

Svarið er einfalt: Já.

Í Biblíunni er að finna fjölda guðsmynda sem sýnir okkur að Guð rúmast ekki í einni ákveðinni mynd eða tveimur. Guð er svo miklu meira en það!

Hugakið faðir hefur verið ráðandi hugtak yfir Guð í okkar hefð og er stöðug notkun þess í helgihaldi m.a. studd með því að vísa í að Jesús Kristur kallaði Guð föður, samanber bænina “Faðir vor”.

Ég er þó nokkuð viss um að við getum ekki lengur látið hið ríkjandi feðraveldi, sem Jesús Kristur var hluti af og allir postularnir líka, stýra tungutaki okkar þegar við tölum um og við Guð í dag. Mörg okkar eru reyndar hætt því fyrir margt löngu á meðan öðrum finnst þetta ekki skipta máli.

Við komumst þó ekki undan því að sem prédikarar boðum við og kynnum ákveðnar myndir af Guði með tungutaki okkar og hugtakanotkun. Þetta á reyndar ekki einungis við um hugtökin sem við notum um Guð heldur einnig hvernig við ávörpum söfnuðinn og tölum um fólk, sem vonandi er ekki einungis í karlkyni.

Sjálf sé ég Guð ekki fyrir mér sem karl eða konu. Fyrir mér er Guð ekki manneskja og ekki heldur eins og manneskja. Guð er eitthvað sem umlykur okkur allt um kring og er jafnvel hafið yfir minn orðaforða. Um leið er Guð eitthvað persónulegt, eitthvað sem elskar og ég get átt í samskiptum við.

Hvaða hgutök get ég þá notað yfir Guð?

Við getum talað um Guð í hvorugkyni enda er orðið hvorugkyns sbr. orðin “tuð”, “puð”, “suð” o.s.frv. Annar möguleiki er að nota nýja persónufornafnið hán. Þetta fornafn var kynnt nýlega og nær yfir þau sem ekki upplifa sig rúmast innan kk eða kvk og finnst of ópersónulegt að nota hvk yfir sig sem persónur. Enn annar möguleiki er að nota ekkert persónufornafn heldur einfaldlega segja Guð. Það getur verið óþjált til að byrja með en venst vel.

Ég tel að það sé mikilvægt að prédikarar noti fleiri en eina mynd þegar þær/þeir tala um Guð. Biblían er full af myndum og umhverfið okkar einnig.

Í kirkjunni hlýtur alltaf að vera að finna fólk sem hugsar allt öðruvísi en við og notar allt aðrar myndir og hugtök um Guð en prédikarinn er vön/vanur. Því er best ef myndirnar okkar og tungumálið er ávalt opið og rúmi sem flestar myndir og hugmyndir en ekki eina þrönga, sem passar prédikaranum sjálfum/sjálfri og kannski enginn deilir.