Að troða trú í kassa

Ávarp Guðs er ástarjátning
“Þetta er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á” sagði Guð þrumandi röddu að ofan þegar Jesús var skírður af Jóhannesi frænda sínum í ánni Jórdan.

Eða var röddin kannski blíðleg, móðurleg, “Þú ert minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á”.

Þetta er ástarjátning. Hefur Guð einhvern tíma sagt eitthvað þessu líkt við þig? Hefur þú heyrt rödd Guðs?

Haldið þið að þetta hafi gerst í alvörunni og skiptir það einhverju máli?

Ég hef aldrei heyrt rödd Guðs, ekki með þrumandi rödd að ofan og alls ekki í vitna viðurvist. Ég trúi samt á Guð.

Fyrir mér snýst trúin ekki um yfirnáttúrulegar upplifanir en ég trúi þó á eitthvað sem er æðra en ég sjálf og kalla það Guð.
Fyrir stuttu síðan var gerð könnun á lífsskoðunum og trú Íslendinga. Niðurstöðurnar eru að mörgu leyti áhugaverðar og gefa vísbendingu um ákveðna hluti. En þar sem svarendur eru fáir er erfitt að fara út í marktækar greiningar á svörunum.

Að mæla trú
Ég vil reyndar byrja á því að gera eina ákveðna athugasemd við þessa könnun. Hún er sú að ég held því fram að ekki sé hægt að kanna trú. Það eru einfaldlega ekki til nægilega nákvæm mælitæki eða viðmið til þess að rannsaka trú fólks. Slíkar rannsóknir hljóta alltaf að þurfa að hafa einhver viðmið og ég tel að þau séu ekki til. Kannski er ég trúlaus í þínum huga. Ja, nema ég sé mjög trúuð miðað við þig.

Ég á vinkonu sem nýlega fór að starfa í kirkju, ekki sem prestur þó. Hún er bara svona frekar “venjuleg” manneskja en eftir að hún hóf að vinna í kirkju hefur hún ítrekað fengið spurninguna, “ertu mjög trúuð”? Alltaf verður hún jafn undrandi yfir því að vera spurð um magn trúar sinnar og veit ekki hvernig hún á að svara. Það er nefnilega svo erfitt að svara þegar við vitum ekki að hverju er spurt og við hvað er miðað? Hún hefur prófað ýmis svör, allt frá því að hún hafi sína barnatrú og upp í að hún sé MJÖG trúuð en fyrst og fremst er hún hissa hvaða áhrif það hefur á sumt fólk í kringum hana að hún skuli starfa í kirkju. Fólk verður svo forvitið og áhugasamt um hvað hún sé eiginlega að gera þarna.

Þegar ég ákvað að verða prestur fékk ég áþekkar spurningar en viðbrögðin voru þó meira í þá áttina að fólk trúði mér ekki og skyldi ekki alveg hvernig ég hefði getað valið mér svona undarlegt starf. Ég tók þessu yfirleitt þannig að ég væri of svöl til að vera prestur, en svona eftir á er ekkert víst að fólk hafi átt við það.

Við getum mælt eða kannað trúarlíf fólks og trúarskoðanir en ég tel að trú sé ekki mælanleg því okkur skortir viðmiðin.

Þegar trú og lífsskoðun verður pólitík
Þegar kannanir, eins og sú sem ég nefndi áðan, eru gerðar þá snúast þær oft meira um pólitík en rannsókn á lífsskoðunum eða trú. Spurningarnar í þessari könnun fjalla þannig margar um skoðanir fólks á Þjóðkirkjunni og á ýmsum pólitískum málum er henni tengjast.

Gallinn við það þegar trú og lífsskoðanir verða að pólitík, og félögin fara að berjast um peningana og rýmið, er sá að líkurnar aukast á því að við gerum lítið úr trúar- og lífsskoðunum einstaklinga. Þetta er atriði sem Þjóðkirkjan, Siðmennt og fleiri trú- og lífsskoðunarfélög hafa ítrekað gerst sek um.

Þannig hefur baráttan um að fá trúarbrögð (aðallega þó Þjóðkirkjuna) burt úr opinberu rými orðið til þess að skapa ótta hjá mörgum. Ótta við að tjá sig um trú og nefna kirkju í nokkru opinberu samhengi. Þessi harkalega umræða, og oft óvæga, er farin að leiða til þess að trúmál og persónuleg trú fólks er að verða álíka feimnismáli og kynlíf var á sjötta áratugnum, skammarlegt en um leið spennandi.

Ég tek undir með þeim sem telja að Þjóðkirkjan eigi ekki að njóta meiri verndar en önnur trú- eða lífsskoðunarfélög en ég er ekki sannfærð um að rétta leiðin sé að útrýma öllu sem er kristið úr opinberu rými og fylla það í staðin með gildum trúlausra. Að banna kristið trúboð og setja inn trúleysistrúboð í staðin. Trúlaust samfélag er nefnilega ekki hlutlaust samfélag. Það felst afstaða í því að velja trúleysi alveg eins og það felst afstaða í því að velja trú. Öllum lífsskoðunum fylgja gildi sem við veljum að lifa eftir og það að boða að Guð sé ekki til er líka boðun.

Það hefur verið sýnt fram á það í gegnum tíðina að það getur haft afar slæmar afleiðingar að takmarka tjáningu fólks á sínum innstu trúar eða lífsskoðunum. Og ég er nokkuð viss að við erum ekki mörg sem viljum lifa í samfélagi þar sem trú er meira feimnismál en kynlíf.

Að troða trú í kassa
Við getum ekki mælt trú einstaklings. Trúin er á dýptina en ekki á yfirborðinu og persónuleg trú einstaklings rúmast sjaldan í einföldum játningum ákveðinna trúarbragða. Þannig er ég nokkuð viss um að hinn venjulega kristna manneskja á Íslandi sé ekki sammála öllu sem segir í postullegu trúarjátningunni. Ég er líka nokkuð viss um að guðsmynd allra sem játa kristna trú rúmist illa innan faðirvorsins þó að hluti hennar geri það. Við veljum okkur einfaldlega það trúfélag sem best rúmar okkar trú eða það lífsskoðunarfélag sem best samræmist okkar lífsskoðun.

Það er mikil einföldun fólgin í því að reyna að setja trú og lífsskoðanir einstaklinga í ákveðna kassa. En það er einmitt það sem við gerum þegar þessi innstu mál manneskjunnar verða að pólitík sem snýst um völd og peninga. Þá reynum við að troða hvert öðru ofan í kassa, sem eru búnir til eftir okkar höfði og oftar en ekki út frá okkar fordómum og með lítil tengsl við raunveruleikann. Og því miður rúma þessir kassar oft aðeins öfgarnar sem fæst okkar vilja kannast við.

Það er mín sannfæring að við myndum öll græða á því að eiga einlæg samtöl um trú okkar og lífsskoðanir, í stað þess að gera hvert annað tortryggileg og lítilsvirða trú og lífsskoðanir hvers annars í keppninni um að hafa rétt fyrir okkur.

Það er ekkert óeðlilegt að Þjóðkirkjan verði fyrir miklu aðkasti þegar kemur að pólitík þar sem hún er stærsta trúfélagið á Íslandi og var lengi nátengd ríkinu. Hún á því að geta þolað mestan ágang. En Þjóðkirkjan er ekki aðeins fjarlæg stofnun, staðsett langt í burtu í húsi á Laugavegi eða uppi í einhverjum kirkjuturni. Kirkjan er samfélag fólksins í söfnuðum landsins. Hún er samansafn fólks með allskonar trú, djúpa og breiða, og í öllum regnbogans litum. Hún er full af ófullkomnu fólki sem gerir fullt af mistökum og fólki sem er alltaf að reyna að vanda sig. Þetta er fólkið sem við gerum lítið úr þegar við förum að troða trúnni þeirra í kassa segja þeim að þau megi ekki tala um hana á almannafæri og að þau verði skömmuð opinberlega ef þau tala jákvætt um Þjóðkirkjuna.

Þú ert mín elskaða dóttir!
Þú ert minn elskaði sonur!

Trú snýst ekki um að Guð tali við okkur á yfirnáttúrulegan hátt í votta viðurvist. Trú er á tilfinningasviðinu en ekki hinu vísindalega. Það er ekki hægt að sanna trú eða tilvist Guðs. Það hefur nógu oft verið reynt.

Ég trúi á Guð sem talar við mig á einhvern hátt. Stundum heyri ég og stundum ekki. Guð sem ég trúi á tekur breytingum þegar ég eldist og þroskast. Guð er ekki eins og manneskja í mínum huga heldur er Guð allt það jákvaða, góða og fallega í kringum mig. Krafturinn sem fær mig til að vilja gera betur og elska.
Ástin.
Kærleikurinn.
Það er Guð.

Guð, sem ég trúi á og er í samskiptum við, rúmast ekki í kassa og ég er nokkuð viss um að mörg ykkar sjáið Guð fyrir ykkur á allt annan hátt en ég. Og það er gott því ef trúin okkar rúmast ekki í kassa þá gerir Guð það ekki heldur.
Ávarp Guðs er ástarjátning
„Þetta er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á“ sagði rödd Guðs af himnum þegar Jesús var skírður af Jóhannesi frænda sínum í ánni Jórdan. Hvernig sem þetta gerðist og var allt saman, þá er markmið þessarar sögu, ástarjátning. Að játa fyrir umheiminn hver Jesús er. Að Guð hafi gerst manneskja í
Jesú.

Og hver veit nema að Guð sé að ávarpa þig og mig í gegnum umhverfi okkar, í gegnum fólkið sem verður á vegi okkar, í gegnum náttúruna. Að Guð segi við þig og mig að við séum elskuð.

Leyfum því okkur að leita að tilgangi lífsins á tilfinningasviðinu líka. Leyfum okkur að trúa á eitthvað sem við getum ekki snert og hlusta á eitthvað sem við getum ekki séð. Leyfum hvert öðru að vera við sjálf og tölum saman um trú okkar eða trúleysi. Við verðum svo miklu vitrari af því að eiga samtal en þegar við lokum okkur af.
Amen.