Að velja og vilja

 

Prédikun í Grafarvogskirkju 14. september 2018

Ég segi mig úr kirkjunni
Ég segi mig bara úr Þjóðkirkjunni!
Það er ekkert að gerast í þessari kirkju. Bara nokkrar gamlar rykfallnar konur á kirkjubekkjunum á sunnudögum. Kirkjan fær háar fjárhæðir frá ríkinu á hverju ári, einu sinni var hún á móti því að samkynhneigt fólk gifti sig. Já og hún getur hún ekki einu sinni tekið á kynferðisbrotum innan kirkjunnar og hvað þá kaþólskra presta í öðrum löndum!

Mýtur og rof
Nei, vitið þið hvað. Þetta er bara alls ekki svona. Í þeim kirkjum sem ég þekki til er meira og minna fullt í messum á sunnudögum og hvorki rykfallið fólk né kirkjubekkir. Kirkjurnar eru fullar af fólki á öllum aldri alla daga vikunnar og flest kvöld. Hingað koma hressir krakkar, tónlistarunnendur, fólk sem syrgir og ástfangin pör af öllum kynjum. Í kirkjuna kemur fólk sem þráir innri frið, fyrirbænir og samfélag með öðru fólki.

Það er svo merkilegt að heyra reglulegar fréttir og fjölmiðlaumfjallanir um þessa kirkju sem fólk er alltaf að segja sig úr Það eru ekki frásagnir úr hverfiskirkjunum, söfnuðunum í hverfinu, bænum eða þorpinu. Um þá kirkju er sjaldan fjallað um í fjölmiðlum. Í þeirri kirkju eru tengsl. Þar er fólk. Þar er líf.

Að sjálfsögðu er ástæða fyrir þessum miklu viðbrögðum margra þegar kirkjan, sem stofnun, gerir eða segir eitthvað sem fólki líkar ekki. Það er ástæða fyrir því að mýtan um rykföllnu tómu kirkjurnar lifir enn og það er ástæða fyrir því að fólk segir sig úr kirkjunni um leið og biskup segir eitthvað sem fólki líkar ekki. Einhvers staðar hefur kirkjan, sem stofnun, misst ákveðin tengsl við fólkið sitt, við söfnuðinn. Lesa áfram „Að velja og vilja“

Kraftaverk og kjaftshögg

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 16. september 2018 út frá Lúk. 7: 11-17.

Þekkir þú einhverja manneskju sem hefur verið reist upp á frá dauðum? Við þekkjum vissulega flest sögur fólks sem hefur dáið eitt augnablik og komið aftur en hér er ég að tala um einhver sem eru sannarlega dáin og eru á leið í gröfina.

Ég hef í gegnum tíðina kynnst nokkuð af fólki sem hefur misst barnið sitt. Ég hef bæði kynnst því í gegnum starfið mitt sem prestur en líka persónulega í minni nánustu fjölskyldu. Ég hef séð og upplifað hvernig slíkur missir breytir öllu. Það er varla nokkuð skelfilegra til en að missa barnið sitt. Slík sorg getur haft miklar afleiðingar allt í kring, bæði á foreldrana sjálfa en líka á systkini, afa og ömmur, fjölskyldu og vini.

Þessi kraftaverkasaga sem við heyrðum hér í dag, um það þegar Jesús reisir son ekkjunnar frá dauðum er eiginlega kjaftshögg þeim sem misst hafa.
Hún er ekki til þess fallin að auka trú.
Í það minnsta ekki ef hún er skilin bókstaflega.

Af hverju reisir Jesús ekki við barnið mitt? Mömmu mína eða afa? Gerði hann þetta bara til að sýna hvað hann gæti og hætti svo? Lesa áfram „Kraftaverk og kjaftshögg“

Æ, Guð viltu laga þetta fólk?

Prétidkun flutt í Grafarvogskirkju 19. ágúst 2018

o

Ég væri til í að geta farið til Jesú með allt fólk sem hefur aðrar skoðanir og ég á því sem skiptir máli. Fólk sem er leiðinlegt við mig vegna þess að því finnst trú heimskuleg og þolir ekki presta. Fólk sem mér finnst vera vont. Ég væri til í að fara með alla óþekka krakka til Jesú og biðja hann að gera þá þæga. Svo ekki sé minnst á fólk sem beitir ofbeldi, já og forseta Bandaríkjanna og íhaldsama karlinn sem þolir ekki frjálslyndan prest sem auk þess er kona. Jesús má alveg leggja hönd yfir hann og opna augu hans fyrir því að hann hefur rangar skoðanir. Mikið held ég að heimurinn yrði mikið þægilegri ef fólk væri aðeins líkara mér.

Um síðustu helgi tók ég þátt í gleðigöngunni ásamt mörg þúsund manns. Á þessum degi fylltist Reykjavík af alls konar fólki sem vildi sýna að það fagnaði fjölbreytileikanum, að það væri opið fyrir því að við erum ólík og alls konar.

Lesa áfram „Æ, Guð viltu laga þetta fólk?“

Heilsa, góðverk og áföll – Prédikun í Grafarvogskirkju 29. júlí 2018

Heilsa, góðverk og áföll

Fyrir nokkrum dögum rakst ég á nokkuð sem kallast jafnvægispróf Heilsufélagsins. Þessu prófi eða könnun er ætlað að meta andlegt og líkamlegt jafnvægi fólks. Ég tók þetta próf og það vakti athygli mína að ein spurningin var um það hvort og hversu reglulega ég gerði góðverk.

Þarna var það að gera góðverk metið sem jákvæður þáttur í andlegu og líkamlegu jafnvægi fólks. Þetta ætti reyndar ekki að koma á óvart því rannsóknir hafa sýnt að, það að gera góðverk geti aukið lífshamingju fólks.

Fyrir nokkrum mánuðum síðan tók ég þátt í rannsókn, sem verið  er að vinna, á áfallasögu kvenna. Þessi rannsókn er unnin á vegum Háskóla Íslandsog rannsóknarefnið er hvaða áhrif áföll hafa á heilsufar kvenna en öllum konum á Íslandi er boðið að taka þátt. Rannsóknin stendur enn yfir en ég var á fyrirlestri um daginn hjá dr. Unni Önnu Valdimarsdóttur, prófessori í læknadeild HÍ og þar kom fram að allt bendi til þess að áföll hafi ekki aðeins áhrif á heilsu kvennana sjálfra heldur einnig á komandi kynslóðir. Þannig geta áföll haft áhrif á meðgöngu fæðingaþyngd, fyrirburafæðingar o.fl.. Þetta gæti jafnvel þýtt að áföll kvenna geti haft áhrif á nokkrar kynslóðir. Sjálfsagt gildir eitthvað svipað um karla, því það er hægt að hafa áhrif á komandi kynslóðir með öðrum hætti en á meðgöngu og í fæðingu, og mögulega verður það einhvern tíma rannsakað.

Með sama hætti verður að teljast líklegt að ef það að gera góðverk geta aukið lífshamingju og bætt heilsu okkar þá geti það einnig haft áhrif á lífshamingju komandi kynslóða. Lesa áfram „Heilsa, góðverk og áföll – Prédikun í Grafarvogskirkju 29. júlí 2018“

Lífstísláskorun

I
Áður en ég var samþykkt sem prestsefni í Sænsku kirkjunni fyrir nokkuð mörgum árum þurfti ég að fara í gegnum heilmikið prógramm. Ég þurfti að vinna verkefni, ein og með öðrum. Ég þurfti að fara í viðtöl við presta, djákna, prófast, biskup, lækni og sálfræðing. Það átti sannarlega að ganga úr skugga um að ég væri hæf til þess að vera prestur.. Í einu þessara viðtala var ég beðin um að lýsa bænalífi mínu og sambandi mínu við Guð. Ég verð að viðurkenna að það kom nokkuð á mig enda þótti mér þetta vera mitt einkamál og ekki alveg koma þessum presti við hvernig ég hagaði mínu bænalífi. Ég var byrjuð að hugsa hvernig ég gæti fegrað mitt ófullkomna bænalíf því satt best að segja var það yfirleitt frekar óformlegt auk þess sem ég gleymdi oft að biðja. Ég byrjaði að reyna að stynja einhverju upp en fljótlega ákvað ég að einlægnin væri best og ég sagði honum að ég ætti í mjög persónulegu og óformlegu sambandi við Guð. Að ég talaði við Guð reglulega svolítið eins og vinkonu eða vin en minna færi fyrir fallega orðuðum og formlegum bænum. Og þegar ég var komin á skrið trúði ég honum fyrir því að ég væri alveg viss um að bænin hefði bjargað lífi mínu þegar lífið var sem erfiðast og ég var að ganga í gegnum áföll.

Nú er nokkuð um liðið síðan þetta var en ég er enn í góðu sambandi við það sem ég kalla Guð þó það hafi breyst og þróast með árunum í takt við að guðsmyndin hefur breyst.

Lesa áfram „Lífstísláskorun“

Að trúa með efa og efast með trú

Ert þú trúgjörn/trúgjarn? Er auðvelt að fá þig til að trúa hinu og þessu eða efast þú um allt þar til þú færð sannanir sem duga þér?

Ég held að ég sé ekkert sérstaklega trúgjörn. Það er ekki svo auðvelt að plata mig. Held ég. En ég er heldur ekki þannig að ég trúi engu. Ég trúi fullt af hlutum sem ég hef ekki sannreynt sjálf. Ég trúi því að maðurinn minn elski mig þrátt fyrir að ég muni aldrei geta fengið fullkomna sönnun á því. Ég hef ákveðnar vísbendingar um það en síðan verð ég að velja hvort ég trúi því eða ekki.

Í dag er ekkert sérstaklega „inn“ að trúa á Guð, í það minnsta í ákveðnum hópum samfélagsins. Þessir hópar hafa sterka rödd og fá gott rými í fjölmiðlum. Stundum er hæðst að þeim sem trúa og einhvern vegin gert ráð fyrir því að trúað fólk hljóti að vera bókstafstrúar. Það er eitthvað sem ég skrifa ekki undir og hef aldrei gert. Auk þess er bókstafstrú afar sjaldséð meðal leiðtoga Þjóðkirkjunnar. En trúleysi getur svo sem verið jafn bókstaflegt og trú og kannski er auðveldara að gagnrýna trú ef fólk gengur út frá því að hún sé bókstafleg.

Mér finnst töff að trúa en mér finnst það ekki alltaf auðvelt. Það er ekki auðvelt vegna þess að ég efast oft líka. Trú er nefnilega ekki bara eitthvað átakalaust og áhættulaust fyrirbæri, einhver þægilegur dvali. Það getur verið barátta að trúa vegna þess að skynsöm manneskja getur varla trúað án þess að efast. Lesa áfram „Að trúa með efa og efast með trú“